138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður ekki hafa neitt leyfi til að túlka orð mín og ræðu mína áðan með þeim hætti sem hún hefur gert, að ég sé að slá á útrétta hönd stjórnarandstöðunnar. Þetta er alrangt og ég óska eftir að hv. þingmaður taki þetta til baka vegna þess að ég hef sagt, bæði í ræðu minni og andsvörum, að ef einhverjir raunverulegir möguleikar opnuðust, sem breið sátt væri um milli þings og þjóðar, um einhverja aðra leið væri ég tilbúin til að skoða það. En ég sé það ekki í augnablikinu hvernig hún gæti verið vegna þess að við getum ekki bæði verið í einhverjum samningum okkar á milli og við þessar þjóðir og um leið verið að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki alveg hvernig þetta getur farið saman þannig að við skulum sem fyrst reyna að setjast yfir það hvort einhver flötur er á samstöðu í málinu og ef hann er ekki skulum við snúa okkur að fullu að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég vísa því á bug að ég sé að slá á einhverja útrétta sáttarhönd. Þvert á móti hef ég opnað fyrir hana ef einhver raunsær flötur skapaðist á því máli.