138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að það var mikil spenna í mér í morgun að fá að hlýða á hvernig menn legðu upp þessa umræðu eftir atburði síðustu daga. Ég er einn af þeim sem töldu að forsetinn mundi samþykkja þau lög sem við afgreiddum í lok desember en virði mjög þá niðurstöðu sem hann komst að, að þjóðin eigi að fá að segja skoðun sína á málinu. Ég hef því átt erfitt með að skilja að menn hafi verið á flótta undan því að láta þjóðina tala. (Gripið fram í.) Ég vil bara fá að tala fyrir mig hér í framhaldi af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar. (Gripið fram í: BJJ: Sáttartónn.)

Menn byrja á því að fara með spunaræðuna frá þeim sérfræðingi sem verið hefur hvað heitastur í spunanum, hann er sérfræðingur í honum. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talar um hræðsluáróður eftir að hafa verið tilnefndur sem aðalhræðsluáróðursaðili íslenska samfélagsins á síðasta ári. (Gripið fram í: SDG: Hver tilnefndi mig? Hvert get ég sótt verðlaunin?) Það má deila um það, það er eins og annað í þessu landi. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Það sem ég vil fá að vita hér og skiptir mestu máli er það sem hér hefur verið spurt um: (Forseti hringir.) Hvað sættum við okkur við? Ekki vegna þess að menn eigi að koma með það allt upp á borðið en menn verða að koma með einhverjar tillögur, því að Framsóknarflokkurinn hefur aldrei (Forseti hringir.) viljað leita sátta í þessu máli.