138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er akkúrat stóra málið, við komum öll saman að þessu borði og reynum í þessari nýju stöðu að líta aðeins upp yfir það sem hefur gerst hingað til — við verðum einfaldlega að gera það — og leita betri lausna.

Nú má ekki skilja þau orð sem ég lét falla áðan þannig að einhverjir á þessu þingi hafi unnið gegn hagsmunum Íslands, það var ekki það sem ég sagði. En það segir svolítið um stöðuna í þinginu að fólk hefur greinilega skilið orð mín á þann veg. Það segir okkur að við erum á röngum stað og þurfum öll að stíga aðeins til baka og segja: Við berum ábyrgð á því að koma þessari þjóð áfram og upp úr þessari efnahagslægð. Við skulum anda með nefinu og skoða öll hvernig við höfum sjálf hagað okkur í þessu máli, ég ætla að gera það líka. Við berum mikla ábyrgð. Ný tækifæri eru að opnast, við klárum þetta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðsluna í dag, það er mál sem þarf að fara í farveg, en þar til hún fer fram höfum við nokkrar vikur. Og hvernig ætlum við að nota þær? Ætlum við að standa hér argandi hvert framan í annað eða ætlum við að vinna þjóðinni gagn með því að (Forseti hringir.) koma góðum málum í gegn og vinna saman að því að (Forseti hringir.) leita lausna í þessu stóra máli?