138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góða ræðu. Ég er sammála henni um að við munum klára þetta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Ekkert annað liggur fyrir en að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við getum nýtt tímann fram að henni til að leita annarra leiða ef grundvöllur er fyrir því.

Ríkisstjórnin lofaði erlendum aðilum því að ríkisábyrgð færi í gegnum þingið og við það hefur hún staðið, við megum ekki gleyma því. Það getur ríkisstjórnin nýtt sér í samtölum við erlenda aðila, hún stóð við það sem hún lofaði. Ég hef verið andstæðingur þessa samnings en ég lít svo á að við höfum sagt það hér á Alþingi að við ætlum að standa við lagalegar skuldbindingar okkar og ef það þýðir að við þurfum að greiða þessa lágmarkstryggingu þá gerum við það, þá fylgi ég því, ég geri það.

En það er komin upp ný staða, frú forseti, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála mér um það (Forseti hringir.) að tækifæri sé til þess að nýta þá stöðu til hagsbóta fyrir þjóðina.