138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í fyrra andsvari mínu að niðurstaða þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta tiltekna frumvarp hefur ekkert með líf eða dauða ríkisstjórnarinnar að gera, það er alla vega skoðun þeirrar sem hér stendur.

Varðandi kosningabaráttuna og þá kynningu sem hv. þingmaður kom inn á er einmitt talað sérstaklega um það í nefndaráliti allsherjarnefndar og lögð áhersla á það að staðið verði fyrir hlutlausri kynningu á málinu. Á fund nefndarinnar í morgun kom m.a. sérfræðingur sem var fenginn til að annast óháða kynningu fyrir hönd bæjaryfirvalda í Hafnarfirði á þeim tíma þegar þar fór fram kosning um stækkun álversins í Straumsvík. Hann upplýsti m.a. að bæjaryfirvöld hefðu kostað þá kynningu en að öðru leyti ekki skipt sér af kynningunni heldur fengið óháða aðila til að annast hana og ég sé fyrir mér að það muni gerast hér þannig líka. Við ræddum það m.a. í morgun að dómsmálaráðuneytið eða yfirvöld gætu fengið einhvern hlutlausan aðila, hvort sem það er einhver stofnun Háskóla Íslands eða eitthvert ráðgjafarfyrirtæki, til að annast kynningu sem væri hafin yfir vafa að væri frekar hliðholl ríkisstjórninni en öðrum. Ég held að það sé afar mikilvægt að staðið sé að kynningunni með hlutlausum hætti og allir sitji við sama borð.

Hins vegar er því ekki að leyna að ég efast ekki um að margir muni kosta miklu til að reyna að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í þeirri baráttu sem fram undan er og það er ósköp eðlilegt, það er bara gangur lýðræðisins að menn reyni með einhverjum hætti að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, hvort sem það eru þingmenn, ráðherrar, óbreyttir borgarar eða einhver félagasamtök úti í bæ.