138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

stofnun atvinnuvegaráðuneytis.

[12:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sérstakur kafli um stjórnkerfisumbætur. Hann er auðvitað þar til að undirstrika þá nauðsyn að eftir hrunið þarf ekki bara að endurreisa fjármálakerfi heldur þarf að endurreisa stjórnkerfi. Þá er mikilvægt að við höfum í huga að við ætlum ekki, vona ég, að endurreisa kerfið eins og það var fyrir hrun. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Hér er kveðið á um vandaða stjórnsýsluhætti og að efla traust almennings á stofnunum hins opinbera. Mig langar í tilefni nýs árs og næstum því ársafmælis þessarar ríkisstjórnar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað líði áformum og undirbúningi þess að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti í Stjórnarráði Íslands og fækka ráðuneytum úr einum 12 niður í níu líklega þegar upp verður staðið. Hvað líður þeirri vinnu og er nokkurt hik á ríkisstjórninni í þessu máli? (BirgJ: Heyr, heyr.)