138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni umhverfisnefndar, Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir hennar orð. Það er ekki eins og Samfylkingin sé mjög umhverfisvæn því að það á að keyra þetta mál hér órætt í gegnum Alþingi. Náttúrverndaráætlun er nefnilega ekki ómerkilegt þingmál, út af því er ég að fara hér fram á frestun á þessu máli þannig að þingmenn og fleiri geti kynnt sér þetta mál og hagsmunaaðilar komið að því að gefa umsögn um það. Eins og komið hefur fram í máli þingmanna var þetta mál rifið út úr umhverfisnefnd í sumar og hefur ekki fengið þinglega meðferð í umhverfisnefnd eins og líka hefur komið fram.

Náttúruverndaráætlunin er gríðarlega mikilvæg eins og ég hef sagt og því verð ég að fara fram á frestun þessa máls. Náttúruverndaráætlun getur ekki verið unnin í ósætti þingflokka á Alþingi, í ósætti við sveitarstjórnir úti um allt land og í ósætti við alla hagsmunaaðila (Forseti hringir.) sem að því máli koma. Frú forseti. Ég óska eftir að málið verði tekið af dagskrá.