138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það bárust alvarleg tíðindi þaðan um helgina um uppsagnir starfsfólks, skerta þjónustu og lokun skurðstofu. Það sem ég vil gera athugasemdir við eru vinnubrögðin og hvernig að þessu hefur verið staðið.

Við lesum í fjölmiðlum um mikil fundahöld ráðherra með stjórnarþingmönnum og það er athyglisvert í ljósi ummæla hv. þm. Róberts Marshalls sem var að hvetja til þverpólitískrar samstöðu að ekki var valið að fara þá leið í þessu tilfelli þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar í Suðurkjördæmi voru ekki boðaðir á þann fund, en látum það liggja milli hluta. Eftir fundinn voru gefnar út yfirlýsingar og haft eftir þingmönnum sem sátu fundinn að góður árangur hefði náðst, málin væru í skoðun og beðið yrði með uppsagnir þangað til búið væri að fara nánar ofan í þessi mál. Síðan er boðað til fundar með starfsmönnum daginn eftir þar sem tilkynnt er um lokun skurðstofunnar, uppsagnir tilkynntar, reyndar ekki allar þær sem fólk átti von á, en látið í það skína að fleiri uppsagnir væru í vændum.

Staðan er mjög alvarleg á umræddri heilbrigðisstofnun og á því svæði þar sem fólk hefur búið við skerta þjónustu um árabil. Það sem er verst í þessu er að það ríkir algert stefnuleysi og þarna kemur fram algert stefnuleysi í málefnum heilbrigðisgeirans og fólk á Suðurnesjum líður fyrir það.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hver stefna ríkisstjórnarinnar sé eiginlega í heilbrigðismálum. Á að flytja alla heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarinnar? Á að láta fjárfestingu liggja ónotaða úti um allt land, t.d. eins og þær fjárfestingar sem gerðar hafa verið í skurðstofum á Suðurnesjum? Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þá tillögu sem komið hefur fram, m.a. frá bæjarstjóranum í Reykjanesbæ, um að sveitarfélögin taki yfir þessa þjónustu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni hugnist sú hugmynd.