138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[16:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Hér kemur mjög skýrt fram að það var með ráðum gert að gera þetta í ósætti. Hv. þingmaður nefndi tvær ástæður fyrir því, sem að vísu eru í mótsögn hvor við aðra. Ef það er orðið svo mikið mál að flýta sér með þetta og þetta skiptir ekki máli nema menn nái alvöru samstöðu, þá kallar ekkert á það að menn geri þetta með þessum hætti og þá borgar sig örugglega að taka meiri tíma úr því að þetta vegur hvort eð er ekki meira en svo að það er ekki bindandi fyrir neinn. En svo er auðvitað ekki, þetta er þingsályktun og auðvitað er hún bindandi.

Ég get alveg lofað því, virðulegi forseti, að þetta mun ekki flýta fyrir málinu, svo því sé algjörlega til haga haldið. Stjórnarliðar ættu að vera farnir að læra að það að vera alltaf með ágreining, alltaf að rífa mál, stór og smá, út í ósætti, hjálpar ekki við að ná framgangi mála, það bara segir sig sjálft. Hér snýr þetta ekki bara að þingmönnum stjórnarandstöðunnar heldur öllum þeim aðilum sem að þessum málum koma, sem eru með einum eða öðrum hætti allir landsmenn, en þó sérstaklega þeim sem hafa hagsmuna að gæta og þessi náttúruverndaráætlun snýr beint að.

Þetta er ekki bjóðandi, virðulegi forseti, að við séum aftur og aftur — hér kemur hv. þingmaður, sem ég þakka náttúrlega hreinskilnina, og segir að þetta sé meðvitað, að menn ætli að taka málið út í ósætti og búa til ófrið um þetta mikilvæga mál og það er óásættanlegt. Það er hægt að skemma mjög góð mál með (Forseti hringir.) slíkum vinnubrögðum.