138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[17:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða mikið efnislega þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, vek þó athygli á því sem hefur verið fært í tal í umræðunni, að það er eins og menn hafi kosið ófriðinn þó friður hafi verið í boði. Það er miður í máli eins og þessu, sem í eðli sínu er mjög þýðingarmikið en líka þess eðlis að um það hefur oft verið efnislegur ágreiningur, að svo færi að það skyldi hafa verið tekið út úr nefndinni í ágreiningi um að það hafi ekki fengið þá efnislegu meðhöndlum sem það hefði þurft á að halda.

Við þurfum að gæta þess í málum eins og þessum að reyna að forðast ófrið og deilur þegar ekki er þörf á því, vissulega getur menn greint á um efnisatriði í þingsályktunartillögu af þessu tagi, en það breytir ekki því að við hljótum að reyna að haga vinnslu málanna þannig að það út af fyrir sig ýti ekki undir ágreininginn.

Ég harma það, ef það er svo sem hér hefur verið sagt, að ekki hafi farið fram nægileg efnisleg umræða um málið í umhverfisnefnd Alþingis. Það gæti verið skýring á því sem ég ætla að fara að fjalla aðeins um, þ.e. að nefndin skyldi ekki taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu mjög glögglega fram við fyrri umræðu málsins þegar hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögunni. Ég tók það upp, ekki í fyrsta sinn, ekki í annað sinn, ég veit ekki hversu oft ég hef komið í ræðustól Alþingis til að vekja athygli á því að gagnstætt anda laganna um Náttúrufræðistofnun og náttúrustofur er ekki að finna stafkrók í þessu plaggi um hlutverk náttúrustofa við framkvæmd og eftirlit náttúruverndaráætlana.

Ég vil ítreka það og árétta sem ég sagði þegar ég talaði um þessi mál að hér er ekki um að ræða einsdæmi, það er ekki í fyrsta sinn sem þetta er svona. Það hefur nánast verið plagsiður í þessum náttúruverndaráætlunum að nefna í ekki neinu hlutverk náttúrustofanna, sem þó eiga greinilega af orðanna hljóðan í lagabókstafnum hafa þar heilmiklu hlutverki að gegna. Við skulum ekki gleyma því að lögin um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur sem voru sett árið 1992 fólu í sér ákveðið skipulag í stjórnsýslunni á þessu sviði. Gert er ráð fyrir því samkvæmt þeim lögum að Náttúrufræðistofnun hafi gríðarlega mikið hlutverk og ekki geri ég ágreining um það.

Það er líka kveðið á um að stofna skuli allt að átta náttúrustofur vítt og breitt um landið sem eigi að hafa mikið hlutverk, sem er síðan nánar tiltekið í lögunum sjálfum, þar sem hlutverk náttúrustofa eru upptalin í 11. gr. laganna.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning og undirstrika hlutverkið sem náttúrustofunum er ætlað ætla ég, með leyfi virðulegs forseta, að lesa 11. gr. laganna, sem er svo:

„Helstu hlutverk náttúrustofu eru:

a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,

b. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,

c. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,

d. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,

e. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar.

Umhverfisstofnun skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.“

Hér er vísað m.a. í 7. gr. náttúruverndarlaga þar sem kveðið er á um að Umhverfisstofnun sé heimilt að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum, einstaklingum og lögaðilum að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, og það skuli gera þann samning sem kveðið var jafnframt á um í lögunum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

Það þarf ekki mikla glöggskyggni til að átta sig á því að Alþingi ákvað mjög veigamikið hlutverk til handa náttúrustofunum til að vinna að undirbúningi mála sem eru greinilega innan verksviðs náttúruverndaráætlunar. Það er augljóst líka að gert er ráð fyrir að náttúrustofurnar hafi mikið hlutverk við eftirlit og þess háttar. Þess vegna hefur mér ævinlega fundist það skjóta skökku við að það skuli hafa verið svo ár eftir ár að þegar náttúruverndaráætlanir hafa verið lagðar fram á Alþingi þá sé engu getið um hlutverk náttúrustofanna.

Náttúrustofurnar hafa verið hálfgerðar hornrekur. Þær hafa verið olnbogabörn. Þeim hefur ekki verið nægilega vel sinnt. Það hefur ævinlega verið þannig við fjárlagagerð á Alþingi að einstakir þingmenn hafa barist fyrir því að fá aukið fjármagn til náttúrustofanna vegna þess að þær hafa gegnt mjög miklu hlutverki. Þær eru rannsóknar- og þróunarstofur, stofnanir á landsbyggðinni, sem hafa verið að festa sig í sessi og vegna áhuga heimamanna og ýmissa þingmanna þá hafa þær sem betur fer verið að eflast. Ýmsar stofnanir ríkisins, svo sem eins og Vegagerðin, hafa auðvitað séð það að eðlilegast hefur verið að leita til þeirra um margs konar verk, t.d. við umhverfismat og þess háttar. Þær hafa gegnt með öðrum orðum ómetanlegu hlutverki.

Þar hafa líka verið ráðnir til starfa afburðamenn á sínu sviði, hámenntaðir vísindamenn, sem hafa gegnt miklu hlutverki og aukið þekkingu. Meðal annars vegna staðkunnáttu sinnar hafa þeir getað aukið við að mínu mati rannsóknir sem ella hefðu ekki skilað jafnmiklum árangri og raun varð á vegna þess að við höfum náttúrustofurnar.

Ég vakti athygli á þessu enn eina ferðina þegar mælt var fyrir tillögunni sem nú er til umfjöllunar. Ég innti hæstv. umhverfisráðherra eftir því hverju það viki við að ekki væri gert ráð fyrir því í þessari áætlun fremur en flestum hinna fyrri, að náttúrustofurnar hefðu hlutverki að gegna hvort sem það væri við undirbúning að gerð náttúruverndaráætlunar og síðan við framfylgd og eftirfylgni hennar.

Skemmst er frá því að segja að hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, brást afar vel og jákvætt við þessu og sagði í ræðu þann 17. nóvember síðastliðinn, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég þakka sérstaklega hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa ádrepu um náttúrustofurnar og mikilvægi þeirra því að ég sannarlega deili þeirri upplifun og þeirri skoðun að mikilvægi þeirra er gríðarlegt. Þetta eru ekki bara umsagnaraðilar heldur ekki síður mikilvægar burðarstoðir oft og einatt í sveitarfélögunum.“

Hæstv. umhverfisráðherra talar einmitt um að þær séu ekki bara umsagnaraðilar, vegna þess að ég vakti athygli á því að stundum þegar þessi mál hefur borið á góma og ég hef verið að taka þau hér upp, þá hefur verið sagt sem svo: Ja, náttúrustofurnar, þær mega nú örugglega fá að segja álit sitt eins og t.d. frjáls félagasamtök. Þetta nær auðvitað engri átt. Það er ekki þannig að náttúrustofurnar séu í hlutverki frjálsra félagasamtaka, sem ég er ekki að gera lítið úr. Þeim er ætlað stjórnsýslulegt hlutverk. Þeim er ætlað hlutverk við rannsóknir, undirbúning og þess háttar. Þess vegna skýtur það skökku við að þeirra skuli ekki getið í þessum áætlunum eins og eðli málsins samkvæmt bæri að gera.

Síðar í ræðu sinni eða andsvari sagði hæstv. ráðherra:

„Ég mun ekki gera neitt annað … en styðja og standa með þingmanninum í því að náttúrustofurnar hafi meiri hlutverk og ef það er verkefni sem umhverfisnefnd getur tekið að sér í umfjöllun og meðförum varðandi náttúruverndaráætlun sé ég ekkert því til fyrirstöðu, þ.e. að samstarfið við náttúrustofurnar sé aukið og styrkt að því er varðar framkvæmdina á náttúruverndaráætlun og það sé sérstaklega nefnt í þingsályktuninni þegar hún verður afgreidd út úr þinginu finnst mér bara eðlilegt og jákvætt.“

Ég ætla að undirstrika þetta síðasta. Hæstv. umhverfisráðherra telur að það sé bæði eðlilegt og jákvætt að þetta atriði varðandi náttúrustofurnar og hlutverk þeirra sé nefnt í ályktunartillögunni sjálfri. Hér er ég ekki að vísa til einhverrar greinargerðar. Hér er ekki verið að vísa til nefndarálits mögulega frá hæstv. umhverfisnefnd. Hér er hæstv. umhverfisráðherra með réttu að undirstrika það að eðlilegt sé að í sjálfri tillögugreininni sé kveðið á um hlutverk náttúrustofanna varðandi náttúruverndaráætlunina.

Hlutverk og tilgangur minn og erindi mitt í þennan ræðustól er að undirstrika þessi sjónarmið mín og hæstv. umhverfisráðherra. Ég tel að það hljóti að hafa verið hrein yfirsjón af meiri hluta umhverfisnefndar, ég vil ekki ætla hv. umhverfisnefnd einhverja meinbægni í þessum efnum eða einhvern þvergirðingshátt, en það hlýtur að hafa verið hrein yfirsjón, sem mönnum getur vissulega orðið á í þessum efnum, að hafa ekki áttað sig á þeim vilja, þeim eindregna vilja hæstv. umhverfisráðherra sem er í raun og veru eingöngu að undirstrika þann anda laganna sem gildir um þessa stjórnsýslu, gildir um hlutverk Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofanna.

Náttúrustofurnar eru eins og ég hef áður sagt bæði grónar og góðar vísindastofnanir á landsbyggðinni. Þær hafa sannað gildi sitt fyrir löngu og þær eru líka einn af hornsteinum þeirrar uppbyggingar á vísinda- og rannsóknasviði sem hefur átt sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Við höfum verið að reyna að byggja einmitt upp þekkingu á þessu sviði vítt og breitt um landið. Að hluta til hefur það verið byggðaleg aðgerð vegna þess að við höfum talið, við sem höfum verið áhugamenn á þessu sviði og það fólk hefur komið úr öllum flokkum, að það væri til góðs fyrir byggðirnar að slíkar stofnanir gætu risið upp og ekki orðið bara eins konar litlar veikar stofnanir sem eru háðar geðþótta fjárveitingavaldsins hverju sinni, heldur stofnanir sem hægt væri að reiða sig á og gætu haft þannig hlutverki að gegna í byggðarlegu tilliti.

Síðan er hitt sem skiptir ekki síður máli að það er líka til framdráttar þeim vísindum og því vísindasamfélagi, þeirri vísindalegu vinnu sem þarf að vinna, að stofnanir af þessu tagi séu einmitt staðsettar úti á landsbyggðinni til að sinna staðbundnum verkefnum eins og kveðið er á um og eftir atvikum þá almennum vísindalegum verkefnum eftir því sem mál skipast hverju sinni.

Þess vegna væri það mjög til þess að styrkja grundvöll náttúrustofanna að kveðið væri á um það með beinum hætti í náttúruverndaráætlun að þær gegni tilteknu hlutverki í samræmi við hið lögformlega hlutverk sem þeim stofum er ætlað.

Ég hef því flutt um þetta sérstaka breytingartillögu á þskj. 643 þar sem lagt er til að á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

„Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.“

Ég hef þegar farið yfir það hvert er hið lögformlega hlutverk náttúrustofa. Ég vakti athygli á að þeim stofum er ætlað mjög viðurhlutamikið hlutverk sem fellur mjög vel að þeim verkefnum sem náttúruverndaráætlanir eru að taka til. Ég trúi ekki öðru en að um þetta geti tekist bærileg samstaða hér á þinginu og verði áréttað með því að Alþingi kveði á um þetta í sjálfri tillögugreininni, rétt eins og hæstv. umhverfisráðherra lagði til í ræðu sinni 17. nóvember síðastliðinn. Þó að ég hafi misst af þeirri ræðu skilst mér að hv. 5. þm. Norðaust., Þuríður Backman, hafi tekið undir þetta sjónarmið mitt og ég hlýt auðvitað að fagna því og þakka þann stuðning sem þar hefur komið fram.

Þetta er ekki flokkspólitískt mál. Þetta er hins vegar mál sem lýtur að þeim vilja okkar að reyna að efla þessa starfsemi úti á landsbyggðinni, bæði í þágu landsbyggðarinnar og í þágu vísindanna. Það er kjarni málsins. Kjarni málsins er sem sagt sá að við kveðum á um það með mjög skýrum hætti að í þessari þingsályktunartillögu, verði hún samþykkt á Alþingi, komi fram skýr vilji og afstaða Alþingis um að náttúrustofurnar fái það hlutverk sem þeim ber samkvæmt lögum og kveðið sé á um það í þingsályktunartillögunni verði hún samþykkt á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þessi mál umfram þetta. Ég fór yfir málið með sambærilegum hætti við 1. umr. þess. Ég hafði satt að segja, kannski í barnaskap mínum, ímyndað mér að málið fengi framgang í nefndinni, ekki síst vegna þeirrar góðu viðtöku sem málflutningur minn fékk hjá hæstv. umhverfisráðherra og ég ætla mér í sjálfu sér ekki þá dul að velta því fyrir mér af hverju mönnum hafi yfirsést þetta. Það er margt sem menn þurfa að fást við í svona miklu bixi eins og náttúruverndaráætlunin er, vonandi telja menn þetta ekki óviðurkvæmilegt orðalag. Ég er eingöngu að vísa til þess að þetta er flókið mál og ég sé að taka þarf tillit til margra hluta, svo sem eins og brekkubobba austur í Mýrdal og þess háttar, sem er langt umfram mína þekkingu á því sviði.

Aðalatriðið er þetta: Hér er um að ræða sanngjarna tillögu í samræmi við lögin, í samræmi við vilja hæstv. umhverfisráðherra og ég heiti á hv. þingmenn að styðja mig og hæstv. umhverfisráðherra í þeim áhuga okkar að styrkja stöðu náttúrustofanna í samræmi við lög þar að lútandi.