138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir uppbyggilega og málefnalega ræðu og gott innlegg í þessa umræðu í dag. Ég vil líka nota tækifærið og þakka þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni sem hefur verið góð. Þingmenn hafa skipst á skoðunum eins og vera ber en ég hygg nú, eins og við höfum svo sem öll sagt, að það sé minna um ágreining en margir kannski hugðu við upphaf umræðunnar. Það er líka mjög verðmætt og gott að fá innlegg frá sveitarstjórnarmanni, fráfarandi, sem hefur ekki einvörðungu þekkingu á heimahögunum, heldur líka á einni tillögunni sem hér er til umræðu og þykir umdeild og það eru skógarsvæðin Eyjólfsstaðaskógur og Egilsstaðaskógur.

Ég vil taka undir með þingmanninum þegar hún segir, frú forseti, að hér sé í raun um viðbót að ræða við þá góðu vinnu sem hefur verið unnin í sveitarfélaginu, skipulagsvinnu og áætlanir um náttúru- og umhverfisvernd. Hér er lagt til að friðlýsa sjaldgæfar fléttur sem þrífast sem ásætur á birki á þessu svæði, 25 sjaldgæfar fléttutegundir og nokkrar þeirra á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Því það verður, frú forseti, ekki nógu oft ítrekað að grundvöllur þessarar áætlunar er vísindaleg úttekt, faglegt mat á náttúru Íslands á vistgerðum og öðru. Það er grunnurinn að þessari áætlun um vernd náttúrunnar. Hér erum við auðvitað að fjalla um hana.