138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir að fá að komast að aftur í þessari umræðu. Það er auðvitað þannig að úrskurður er endanlegur, það er endanleg stjórnvaldsaðgerð. Þegar hæstv. ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála úrskurðar 31. ágúst sl. þá er það um ólögmæti þess að skipulagsgerð sé greidd með öðrum hætti en úr sveitarsjóði eða með tilstyrk skipulagssjóðs. Það liggur fyrir og þá er það í raun og veru punkturinn sem allt hefst á, þegar úrskurður ráðherrans liggur fyrr.

Hvað varðar frumvarp til nýrra skipulags- og byggingarlaga, sem ég vona svo sannarlega að sé á leiðinni inn í þingið — ég hef ekki séð drög þess nýlega. Það má vera að þau hafi breyst í meðförum ráðuneytisins síðustu tvö missiri en mér er ekki kunnugt um það. En ég get fullvissað hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson um að við munum að sjálfsögðu taka þetta mál til skoðunar við þær breytingar af því að ég geri mér alveg grein fyrir því að víða um land er þetta mikið vandamál lítilla sveitarfélaga. En vandinn er kannski fyrst og fremst sá að það eru allt of mörg, allt of lítil óburðug sveitarfélög á Íslandi.