138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja út af orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schram og vinnu í hv. viðskiptanefnd að mér hefði fundist í lagi ef hv. þingmaður hefði getið þess hver á frumkvæði að því að þessi mál eru tekin fyrir í hv. viðskiptanefnd. Það var nefnilega að frumkvæði okkar sjálfstæðismanna og stjórnarandstöðunnar. Ég verð glaður ef sameiginleg niðurstaða næst hjá stjórn og stjórnarandstöðu um meðferð þeirra mála en ég er svo hjartanlega sammála hæstv. forsætisráðherra um að þar eru mjög miklar brotalamir. Ég tek undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að það var sérkennilegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra tala með þeim hætti sem raun bar vitni í gærkvöldi. En áður en við fögnum samstöðunni skulum við klára vinnuna í nefndinni.

Ég ætla að spyrja hv. formann menntamálanefndar út í umræðu sem tengist Ríkisútvarpinu. Það hefur mikill órói verið um þá stofnun en kannski kom nýr vinkill fram þegar hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands tilkynnti að verið væri að skoða það í ríkisstjórninni að setja upp tukthús í Efstaleiti. Þetta er auðvitað afskaplega róttæk og áhugaverð hugmynd og kom held ég flestum spánskt fyrir sjónir. Það væri kannski ágætt að fá að heyra það frá hv. formanni menntamálanefndar hvort þetta sé mikið til umræðu innan stjórnarflokkanna, hversu langt þetta mál er komið og hvenær við munum fá niðurstöðu. Það væri líka ágætt að fá að vita hvort menn hafi tekið út húsnæðið sérstaklega, af því að hæstv. ráðherra talaði um að þetta hentaði svo einstaklega vel fyrir tukthús.

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann út í þá gagnrýni sem hæstv. samgönguráðherra kom með á hæstv. menntamálaráðherra, að hér væri verið að loka svæðisstöðvum sérstaklega til að fá landsbyggðarþingmenn til að koma með peninga inn í þær. Þetta er ein harðasta gagnrýni (Forseti hringir.) sem ég hef heyrt hæstv. ráðherra í ríkisstjórn (Forseti hringir.) koma með á félaga sinn og væri kannski ágætt að fá sjónarmið hv. þingmanns á þessu.