138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur og líka svari hæstv. ráðherra. Mig langar aðeins í þessari stuttu athugasemd til að spyrja hvort eitthvað sé hægt að gera, og þá hvað, þegar við metum úrræði fyrir þá sem hafa fallið úr skóla og eru atvinnulausir, til að koma þeim inn í einhvern farveg aftur, hvort heldur er nám tengt vinnu eða beint inn í skóla. Með hvaða hætti er hægt að nýta sér þó það raunfærnimat sem þessir einstaklingar hafa áunnið sér á einn eða annan hátt? Hugsanlega hafa þeir verið sjálfboðaliðar í björgunarsveitum eða unnið einhvers staðar í félagsstarfi þó að þeir hafi ekki fallið að sjálfu skólakerfinu. Hvernig er þá raunfærnimat þeirra á þeim vettvangi hugsanlega metið í aðgerðum sem við erum að horfa til hér?