138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

för forsætisráðherra til Brussel.

[10:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þó að ég hafi oft haft uppi harða gagnrýni eða stór orð á þingi rekur mig ekki minni til þess að ég hafi nánast jafnað forsætisráðherrum Íslands við einræðisherra eða borið það á þá að þeir væru að smána þjóð sína. (VigH: Ég var að …) Það skulu vera orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hún skal eiga þau við sig, að tala þannig um kynsystur sína, (Gripið fram í.) hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.

Varðandi lánamálin er það ósköp einfalt að það hefur verið til skoðunar hjá Evrópusambandinu að út úr svonefndu „Microfinance Assistance“ prógrammi kynnu að opnast einhverjir lítils háttar lánamöguleikar til Íslands. Þar er ekki um háar fjárhæðir að ræða, hafa verið nefndar tölur af stærðinni 100–150 millj. evra, og skiptir ekki miklum sköpum í sambandi við þau lánamál Íslands sem hæst ber um þessar mundir, hvort sem það eru lánin til að efla gjaldeyrisvaraforðann, Icesave-lánin eða annað í þeim dúr. Það er alveg ástæðulaust (Forseti hringir.) fyrir hv. þingmann að hrökkva af hjörunum út af því.