138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:36]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég á sæti í viðskiptanefnd og við höfum verið að skoða þau úrræði sem fólki standa til boða. Ég verð að viðurkenna að þau hafa valdið mér miklum vonbrigðum og ég get ekki séð að það sé réttlæti í sjónmáli. Eitt af því sem hefur komið fram er að eitt af meginmarkmiðum bankanna er að viðhalda greiðsluvilja fólks, fá fólk til að halda áfram að borga. Ég bendi ríkisvaldinu á að á sama hátt þarf það að hafa það að markmiði sínu að fólkið í landinu viðhaldi vilja sínum til þess að borga skatta áfram og taka þátt í þessu þjóðfélagi. Til þess þarf fólk að upplifa á eigin skinni að það lifi í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Það gerir það ekki í dag. Hér varð kerfishrun og í því felst algjör forsendubrestur. Hann hefur ekki verið leiðréttur og við höfum ekki séð neitt í þá áttina. Því upplifir fólk samfélagið ekki réttlátt og sér ekki heldur tilgang í því að taka þátt. Málið er ekki flóknara en það. Fólk flytur úr landi eða það tekur þátt í svartri atvinnustarfsemi.

Það er bitur staðreynd, frú forseti, að stór hluti þess fólks sem keypti húsnæði, skjól fyrir fjölskylduna sína á allra síðustu árum fyrir hrun, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er upp til hópa tæknilega gjaldþrota. Íbúðarhúsnæði hefur með tilliti til óstöðugleika íslensks efnahagslífs í gegnum tíðina ekki verið talið áhættufjárfesting, heldur kannski eina örugga fjárfestingin. Það er því ekki rétt að segja að fólk hafi tekið óþarfa áhættu.

Frú forseti. Því miður bendir margt til þess að bæði bankarnir og stjórnvöld hafi komið óheiðarlega fram í aðdraganda hrunsins, beitt blekkingum og sannfært bæði landsmenn og erlend stjórnvöld og eftirlitsstofnanir um að hér væri allt í stakasta lagi. Almenningur, fólkið í landinu, hafði engar forsendur til að skynja (Forseti hringir.) hvað væri í vændum, því verður að koma til leiðrétting á höfuðstól íbúðalána, sérstaklega hjá þeim sem eru með erlend íbúðalán og þeim sem fjárfestu (Forseti hringir.) eftir 2004.