138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:31]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú hlustað hér á endurteknar ræður í þessu máli og skilmerkilegar og ágætar ræður stjórnarandstöðunnar. Nú er svo komið að þær eru endurteknar og menn eru að koma inn á þætti sem koma frumvarpinu ekki við. Ég spyr hv. þingmann hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið málþóf í málinu. Ég spyr hvort flokkurinn hafi ákveðið að tefja þetta mál þannig að það komist síður eða seint inn í nefndina, sem stendur til að gera milli 2. og 3. umr. Ég spyr líka hv. þm. að því hver afstaða hennar til línuívilnunarákvæðisins sé, til þess að takmarka flutning milli ára, til veiðiskyldunnar o.fl. Í mínum augum eru öll þessi ákvæði og einnig skötuselsákvæðið atvinnuskapandi og þá sérstaklega fyrir landsbyggðina. Línuívilnunin hefur reynst sérstaklega vel fyrir Vestfirði og víðar þar sem er kvótalítið. Hver er afstaða hv. þingmanns til þessara atriða sem frumvarpið snýr beinlínis að? Ég vil heyra þau sérstöku rök.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason og hv. varaformaður sjávarútvegsnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, hafa gert ítarlega grein fyrir þessum atriðum. Ég vil heyra skoðanir þeirra sjálfstæðismanna sem kjósa að ræða þetta til einstakra atriða frumvarpsins, m.a. þess sem ég hef spurt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um.