138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

skýrsla sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs.

313. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Enn mæli ég fyrir þremur þingsályktunartillögum frá Vestnorræna ráðinu. Meðflutningsmenn mínir eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson.

Fyrst mæli ég fyrir þingsályktunartillögu um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sameiginlega skýrslu sjávarútvegsráðherra landanna þar sem fram komi nákvæmt yfirlit yfir þá formlegu samvinnu sem er á milli Vestur-Norðurlanda bæði hvað varðar rannsóknir á lifandi auðlindum sjávar og fiskveiðistjórnina, ekki síst á sameiginlegum fiskstofnum.“

Þessi tillaga er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 5/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Rúnavík í Færeyjum 27. ágúst sl. Óskað er eftir því að skýrslan liggi fyrir í mars 2010 þannig að hún geti legið til grundvallar umræðum á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í júní 2010 og mun fjalla um hin ólíku og mismunandi fiskveiðistjórnarkerfi Vestur-Norðurlanda.

Það er ekki mikið meira um þessa þingsályktunartillögu að segja, annað en það að fiskveiðistjórn er afar mikilvægur þáttur í atvinnulífi og efnahag landanna þriggja og þar af leiðandi er mikils um vert að hafa sem mest samráð og sem liðlegust upplýsingaskipti á milli landanna um hvernig þessum þáttum er fyrir komið þannig að löndin þrjú geti lært hvert af öðru, skipst á þekkingu og dregið góðar ályktanir af og markað sér stefnu í fiskveiðistjórnarmálum í ljósi reynslu hver annarrar og þá hugsanlega með auknu samstarfi frá því sem verið hefur.

Önnur þingsályktunartillagan er um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum og milli Færeyja og Grænlands um skipti á opinberum sendifulltrúum:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.“

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún var áður flutt á 136. löggjafarþingi. Hún er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

„Færeyjar og Ísland hafa sett upp sendiskrifstofur í löndum hvort annars. Vestnorræna ráðið skorar á landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands að gera með sér sams konar samkomulag um stofnun sendiskrifstofa þar sem starfi útsendir sendifulltrúar á vegum utanríkisþjónustu landanna. Vestnorræna ráðið skorar einnig á landsstjórn Færeyja og Grænlands að skiptast á opinberum sendifulltrúum. Löndin eru hvött til þess að koma sér upp sameiginlegum skrifstofum eftir því sem tök eru á.“

Í ályktuninni fylgir rökstuðningur svohljóðandi:

„Löng hefð er fyrir jákvæðu og víðtæku samstarfi vestnorrænna þjóða. Þær eru nánustu nágrannar og hafa öldum saman átt með sér góð vináttu- og nágrannatengsl. Jafnframt hefur verið nokkuð algengt að íbúar hafi flust milli landanna, starfað þar og haft búsetu.

Ríki stofna jafnan ræðis- og sendiskrifstofur sem og sendiráð í löndum sem þau tengjast nánum böndum í krafti víðtæks samstarfs og/eða viðskipta. Undanfarin ár hafa tengslin og samstarfið milli vestnorrænu landanna vaxið stöðugt að umfangi, ekki síst fyrir tilstilli Vestnorræna ráðsins.

Til að styrkja enn frekar böndin á milli þeirra telur Vestnorræna ráðið mikilvægt að koma á gagnkvæmu og formlegu stjórnmálasambandi milli Vestur-Norðurlanda enda hafi það ótvírætt gildi fyrir íbúa landanna sem og vöxt og viðgang vestnorræns iðnaðar og atvinnulífs að geta leitað eftir aðstoð sendi- eða ræðismannsskrifstofa þegar kemur að viðskiptum, ferðalögum og búferlaflutningum milli landanna.

Þar sem aðildarlönd Vestnorræna ráðsins eru ekki öll sjálfstæð ríki getur verið nauðsynlegt að koma á annars konar formlegu sambandi en eiginlegu stjórnmálasambandi í formi sendiskrifstofu þar sem starfi útsendir sendifulltrúar frá utanríkisþjónustu landanna. Vestnorræna ráðið telur að stofnun sendiskrifstofu með útsendum sendifulltrúum á vegum utanríkisþjónustu landanna í tilviki Íslands og Grænlands og skrifstofu opinberra sendifulltrúa í tilviki Færeyja og Grænlands sé eðlilegt framhald á langri og góðri samvinnu milli Vestur-Norðurlanda og skorar því á stjórnvöld landanna að vinna í því að koma slíku á fót.“

Þannig hljóðaði rökstuðningur og ályktun Vestnorræna ráðsins sem var samþykkt á ársfundi þess í Grundarfirði fyrir tveimur árum og er í reynd greinargerðin fyrir þessari þingsályktunartillögu.

Þriðja þingsályktunartillagan er um að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum, og hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum.“

Í greinargerð kemur fram að tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum.

Meðalaldur hefur hækkað á Vestur-Norðurlöndum sem þýðir að öldruðum fjölgar á sama tíma og dregið hefur úr barnsfæðingum. Þessi þróun getur m.a. leitt til þess að skortur verði á starfsfólki við umönnunarstörf auk annarra afleiðinga. Samhliða þessu annast börn sjaldnast foreldra sína núorðið þegar þeir geta ekki séð um sig sjálfir.

Skortur er á hjúkrunarheimilum og íbúðum fyrir aldraða á svæðinu og því algengt að aldraðir flytji frá heimili sínu beint á hjúkrunarheimili og þá fyrst eftir að þörfin hefur verið brýn í langan tíma.

Í ljósi þeirra krefjandi verkefna sem fram undan eru í málefnum aldraðra er mælt með því að Vestur-Norðurlöndin auki samvinnu sín á milli og gagnkvæma upplýsingamiðlun um með hvaða hætti sé mögulegt að tryggja eldri borgurum viðunandi húsnæði, lífsgæði og umönnun.

Frú forseti. Við leggjum til að þessum þremur þingsályktunartillögum verði vísað til utanríkismálanefndar með ósk um að þær fái skjóta og góða afgreiðslu þar.