138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er þekkt að margir hafa áhyggjur af því að það sé erfitt fyrir nýliða að hefja útgerð og komast inn í núverandi kvótakerfi. Undir það má taka með vissum rökum. Þess vegna er mjög mikilvægt að hrófla ekki við þeim möguleika sem menn hafa á að komast inn í kerfið með því að leigja sér aflaheimildir og hefja útgerð. Það eru jú í grunninn bara tvær leiðir sem menn hafa, annars vegar sú að fjárfesta í kvóta, og það er mjög dýrt og kallar á eigið fé, og hins vegar að hefja útgerð með leigukvóta.

Með því að við erum nú að fara að samþykkja það að draga úr möguleikum manna til að leigja kvóta er um leið dregið úr möguleikum nýliða til að komast inn í greinina. Það er alveg nauðsynlegt að hv. alþingismenn geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þessi liður mun hafa á möguleika manna til að komast inn í greinina. Þetta dregur úr möguleikum nýliða, það er lykilatriði.

Það er nauðsynlegt líka að hafa í huga, af því að þetta framsal er ekki vinsælt, að það þarf tvo til, (Forseti hringir.) einn til að leigja og einn til að leigja frá sér. Þetta eru óþvinguð viðskipti, frú forseti.