138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu en mig langar til að fá skýringar á nokkrum hlutum sem fram komu í máli hans. Ef ég skildi hv. þingmann rétt taldi hann að núverandi kvótakerfi yrði ekki breytt í meginatriðum. Ég skildi hv. þingmann þannig. Af því að talsvert hefur verið rætt um fyrningarleiðina væri ágætt að fá betur fram hvort það sé leið sem hugnast ekki hv. þingmanni.

Nú kom fram í máli hv. þingmanns að hann teldi rétt að fleiri en eitt kerfi væri í gangi og þess vegna styddi hann þetta mál. Ég verð að lýsa því yfir að ég get ekki verið sammála umræðunni um hagkvæmni þessara veiða sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Mig langar til að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann sé ekki á þeirri skoðun að kvótakerfi, sérstaklega kvótakerfið okkar sem víðs vegar í heiminum er litið á sem fyrirmynd um kerfi þar sem sjálfbærar veiðar án ríkisstyrkja eru í forgrunni, sé sú leið sem á að vera leiðandi og að við ættum að standa áfram við bakið á því kerfi sem hefur skapað þær forsendur að íslenskur sjávarútvegur er arðbær grein sem skilar þjóðarbúinu gríðarlega miklum gjaldeyristekjum.

Ekki kom fram afstaða þingmannsins til þess frumvarps sem hér var greitt atkvæði um fyrr í dag varðandi skötuselinn og þá staðreynd að þar var verið að heimila eða leggja til að heimila 80% meiri veiðar á þeirri tegund heldur en ráðleggingar Hafró gera ráð fyrir. Þar er að mínu mati verið að vega að þeirri fyrirmynd sem Ísland er í þessum málaflokki. Því vil ég spyrja um afstöðu hv. þingmanns, sem hefur talað mikið um vistvænar og sjálfbærar veiðar, græna stjórnun og hvatakerfi.