138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega allt að því vonlaust verk en ég tel að okkur beri skylda til að reyna að benda á hvað hér er í gangi. Það væri miklu hreinlegra af ríkisstjórnarflokkunum að koma fram og lýsa því hvað þeir ætli sér að gera í sjávarútvegsmálum. Reyndar liggur það fyrir í stjórnarsáttmála að þjóðnýta eigi íslenskan sjávarútveg og er það nokkuð ærið verk sem fram undan er. En gott og vel. Síðan er allt það sem hefur verið að gerast í þinginu á undanförnum dögum og kannski missirum, sem sést hefur í frumvarpi um skötusel, frumvarpi um frístundaveiðar, frumvarpi um strandveiðar og nú í því frumvarpi sem hér er verið að ræða, um veiðieftirlitsgjald.

Það væri til bóta ef ríkisstjórnin skýrði hvert hún ætlaði að fara, hver stefnan væri. Því þegar maður skoðar frumvörpin öll saman, frumvarpið sem hér um ræðir og þau frumvörp sem áður hafa verið nefnd — það má jú greina einhverja ákveðna stefnumótun — er það eina sem menn geta áttað sig á þar að það virðist vera nokkuð ríkur vilji til þess að draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi undir þeim formerkjum að láta eigi fleiri sjá um að veiða þann afla sem hægt er að veiða, einna helst reyndar undir þeim formerkjum, og síðan að taka eigi meiri skatt af greininni. En það væri alla vega til bóta fyrir alla umræðuna og reyndar fyrir greinina og fyrir þjóðina alla á þessum erfiðu tímum að menn settu fram einhverja heildstæða stefnu sem síðan væri fylgt eftir með frumvörpum til laga um breytingar á stjórn fiskveiðimála.

Við erum t.d. að fá núna þetta frumvarp og það þarf að kalla eftir því alveg sérstaklega frá ráðherranum þegar frumvarpið er lagt fram, og það hefði ekki komið fram nema sérstaklega hefði verið gengið eftir því, að hér sé ekki um að ræða gjaldtöku, heldur skattheimtu. Það er auðvitað sérstakt vegna þess að manni finnst undarlegt að sjávarútvegsráðherra gangi fram fyrir skjöldu og heimti aukinn skatt af íslenskri útgerð. Og enn og aftur, þetta er hækkun á sköttum vegna þess að þegar menn horfa á þær tekjur, þann skatt sem íslenska ríkið tekur af hverju tonni, hvort sem það eru margir bátar eða fáir, þá er hér um að ræða aukna skattheimtu og ekkert annað.

Ég kalla mjög eftir því að reynt verði að ná saman einhvers konar plaggi undir forustu hæstv. sjávarútvegsráðherra um það hver stefnumið ríkisstjórnarinnar eru í raun og veru hvað varðar sjávarútveginn. Það gengur ekki að halda áfram eins og verið hefur þar sem menn koma fram með eitt og eitt frumvarp sem öll eiga það þó eitt sameiginlegt að grafa undan eins og ég sagði hagkvæmni í greininni. Miklu hreinlegra væri að menn segðu hvað þeir ætluðu sér að gera og hvers vegna þeir eru að því, af því að það má sá vita sem allt veit að stjórnarliðum hefur gengið frekar illa að útskýra fyrir þinginu hvernig stendur á því að menn fara þessar leiðir.

Hér hefur verið talað mikið um það, t.d. þegar við ræddum um strandveiðar, að það hafi verið svo mikil ánægja hjá þeim sem stunduðu strandveiðarnar og því ættu menn að halda áfram með þær. Að sjálfsögðu. Ætli það yrði ekki ánægja t.d. hjá þeim sem fengju leyfi til nýta jarðir bænda ókeypis, ef tekinn yrði hluti af jörðum bænda og sagt: „Þið megið nýta þetta.“ Ætli það yrði ekki ánægja með það? Auðvitað. Ætli það yrði ekki ánægja með það hjá þeim sem fengju að búa í annarra manna húsum frítt? Það yrði ánægja með það hjá þeim. En hvort það er skynsamlegt efa ég.

Það sem skiptir svo miklu máli í þessu, hvort sem við erum að ræða þetta frumvarp, um veiðieftirlitsgjaldið sem er skattheimtufrumvarp, eða önnur frumvörp sem snúa að sjávarútveginum, er að rökstyðja það sem við erum að gera. Rökstuðningurinn hefur verið mjög þunnur fyrir mjög veigamiklum breytingum. Tökum dæmi, herra forseti, eins og með skötuselinn. Þar er því borið við að breyta þurfi frá aflahlutdeildarreglunni af því að skötuselurinn hafi breytt um útbreiðslu, það sé önnur útbreiðsla. Slík rök geta átt við hvaða fisktegund sem er. Með því einmitt að nota þau rök, sem var alveg einstaklega slæmt, var verið að senda þau skilaboð til greinarinnar að alltaf væri hægt að nota þau rök um allar fiskveiðar. Það er mjög (Forseti hringir.) óheppilegt. Enda var líka einmitt þeim rökum beitt, herra forseti, þegar kom að því að ræða hér um (Forseti hringir.) strandveiðarnar varðandi þorskinn, að það væri ekkert mál að kippa reglum út.