138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úrræði gegn ólöglegu niðurhali hugverka.

253. mál
[14:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að umræðan eins og hún hefur verið á Norðurlöndum snúi að því að ganga ekki of hart fram heldur reyna hinar mýkri leiðir og þar vísa ég í það sem gert hefur verið í Svíþjóð. Það sem mig langar líka að nefna er Danmörk þar sem netþjónustuaðilar hafa tekið mjög virkan þátt í þeirri vinnu að draga úr áhuga notenda á skráarskiptum. Frumkvöðull í þessum efnum hefur verið danski Landssíminn, TDC, sem samþættir netþjónustu og tónlistarveitu og TDC býður til að mynda um þessar mundir upp á meira en 5 milljónir laga í þjónustu sem nefnist TDC Play og til þessa hefur 120 milljónum laga, og þá er ég að vísa í tónlistarlög, verið hlaðið niður frá þjónustunni sem jafngildir því að hver einasti Dani hafi sótt 22 lög. Síðan eyðast lögin ef áskrift er sagt upp. Samt virðast þessar tónlistarskrár koma fullkomlega í stað hins ólöglega niðurhals, enda er tónlistarnotkun almennings núorðið hugsanlega breytt frá því sem var. Menn kaupa sér að sjálfsögðu plötur enn þá en það er líka mikið um að fólk hlustar á tiltekin lög og hættir svo að hlusta á þau og vill ekki endilega hafa þau í sinni eigu. Þetta er því orðið breytt og tengist kannski meira einnota notkun á tónlist sem við sjáum meira af, líka út af vaxandi framboði.

Samkvæmt könnun rannsóknafyrirtækisins Megaphone segja 40% notenda TDC Play að þeir hlaði nú niður færri ólöglegum skrám en áður og danski landssíminn hefur lýst mikilli ánægju með fyrirkomulagið.

Það eru hins vegar ávallt ótal aðferðir við að afrita tónlist án heimildar. Ég vil bara nefna hér að lokum að að sögn Johns Kennedys, sem er yfirmaður samtaka hljóðritaútgefenda, var ólögleg dreifing tónlistar við lýði löngu áður en skráarskipti komu til sögunnar. Hann skrifaði grein í The Economist um „Music piracy singing a different tune“ núna í nóvember 2009 þar sem hann segir m.a. að markmiðið sé ekki að útrýma því enda sé það óvinnandi vegur, heldur stuðla að því að neytendur taki sjálfir löglega kosti fram yfir ólöglega. Það er kannski það (Forseti hringir.) markmið sem við eigum að hafa að leiðarljósi í vinnu okkar við þessi mál fram undan.