138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

nýliðun í landbúnaði.

363. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Mikilvægi landbúnaðar hefur trúlega aldrei sannað gildi sitt í eins miklum mæli og eftir að hið mikla efnahagshrun reið yfir landið og skilningur Íslendinga á því að við framleiðum hér matvöru sem er ein sú besta í heiminum og að við tryggjum fæðuöryggi þjóðarinnar hefur vaxið. Skilningur okkar allra hefur vaxið til muna á þeim hörmungartímum sem hafa dunið á okkur Íslendingum, þannig að tilvist og starfsemi bænda og mikilvægi stéttarinnar hefur trúlega aldrei verið eins mikil og í dag.

Í dag er meðalaldur bænda um 54 ár, hefur farið hækkandi á undangengnum árum, og við, mörg hver, þar með talinn hæstv. landbúnaðarráðherra, höfum lýst yfir miklum áhyggjum á skorti á nýliðun í þessari mikilvægu grein. Um 4.000 bændur eru í landinu í dag og það er mjög mikilvægt til lengri tíma litið að við styðjum við þessa stétt og því beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir aukinni nýliðun í landbúnaði?

2. Hvað hafi hæstv. ráðherra gert nú þegar í þeim efnum?

Við þekkjum það í tengslum við búvörusamninga að þar er ákvæði, sérstaklega í sauðfjársamningnum, um nýliðunarstyrk. Upplýsingar mínar eru þær að menn hafi nýtt sér þann nýliðunarstyrk í allt of litlum mæli. Maður hlýtur þá að spyrja sig að því: Er eitthvað að þeim reglum sem um þann styrk gilda ef menn sækja ekki í hann eins og ætla mætti þegar sauðfjársamningurinn var gerður?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi velt því fyrir sér að auka mætti aðgengi ungra bænda, kannski nýútskrifaðra búfræðinga, að ríkisjörðum með því að veita þeim hagstæða leigu, einhvern forgang til aðila sem hafa sótt sér menntun og vilja vinna við þetta, vegna þess að það eru miklir þröskuldar fyrir ungt fólk að komast inn í þessa grein. Þetta er svo sem ekki eini þröskuldurinn á þeirri vegferð en þarna gæti hæstv. ráðherra reynt að auka aðgengi ungs fólks að þessari atvinnugrein sem er mikilvægt að við stöndum vörð um.

Mikilvægt er að fá svör frá hæstv. ráðherra við þessum spurningum vegna þess að í dag er mjög erfitt fyrir ungt fólk að komast inn í þessa atvinnugrein og ef við viljum standa undir nafni sem þjóð sem framleiðir góð matvæli til lengri tíma litið, verðum við að ráðast í einhverjar aðgerðir til að stuðla að nýliðun í þessari mikilvægu atvinnugrein. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvað hann hafi gert og hvað hann ætli sér að gera í þeim efnum.