138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:02]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi fór svo hressilega fram yfir tíma að ég vona að ég fái að gera slíkt hið sama í svari mínu.

Auðvitað viljum við öll byggja upp sjálfbært atvinnulíf í sem víðustum skilningi hvort sem það snýr að náttúrunni eða í efnahagslegu tilliti. Ofþensla og síðan hraður samdráttur er ekki það sem við viljum sjá og ekki heldur þær öfgar sem við höfum séð í íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi á undanförnum árum þar sem bólur á einstaka sviðum hafa verið einkennandi.

Núna erum við að vinna í því að skapa tækifæri fyrir atvinnulífið til að geta vaxið innan frá. Það er alveg ótrúlegur endurnýjunarþróttur sem birtist í íslensku atvinnulífi þessa dagana þegar þetta samdráttarskeið hefur átt sér stað. Sem dæmi má nefna að auðvitað sýna upplýsingar um ný störf sem eru að skapast í hátækni-, sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum að þar hafa skapast hundruð starfa, og hundruð starfa til viðbótar munu skapast á næstu mánuðum.

Sama vísbending birtist t.d. í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands en þar fjölgar störfum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 14% á tímabilinu frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2009. En að jafnaði fækkaði störfum um 5% á sama tíma almennt, heilt yfir litið. (Gripið fram í: Hvað eru það mörg störf?) Þarna sjáum við líka að þúsundir nýrra starfa hafa orðið til í ferðaþjónustunni og við erum að undirbúa að enn fleiri geti orðið til á næsta ári. Endurnýjunarþrótturinn í íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi á að vera fagnaðarefni, hv. þingmenn hafa lokað augunum fyrir þessari staðreynd og gert lítið úr henni, að mínu mati. (Gripið fram í: Af hverju …?) Við erum að vinna, virðulegi forseti, hér hefur orðið samdráttur en sem betur fer hefur atvinnuleysi ekki orðið meira vegna þess að ný störf hafa líka skapast. (Gripið fram í.) Menn mega ekki gera lítið úr því. (Forseti hringir.) Við erum að ýta undir þennan endurnýjunarþrótt í atvinnulífinu með margvíslegum aðgerðum sem kynntar hafa verið, virðulegi forseti, og eiga eftir að skapa þúsundir nýrra starfa á næstu mánuðum. Hv. þingmenn ættu að koma með okkur í þann leiðangur, (Forseti hringir.) að vinna þessum verkefnum brautargengi, í stað þess að tala þau niður. (Gripið fram í.)