138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[12:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni Eygló Harðardóttur sérstaklega fyrir frumkvæði í þessu máli og eljusemina við að bera það ítrekað fram. Við þekkjum öll til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Það er vart hægt að hugsa þá hugsun til enda að hennar hefði ekki notið við í hruninu og þeim barningi sem fylgdi í kjölfarið. Hér er í meginatriðum svipað úrræði fyrir minni fyrirtæki.

Í almennri umræðu um fyrirtæki og atvinnulífið eru sjónarhorn og hagsmunir stóru fyrirtækjanna alltaf mun fyrirferðarmeiri, svo virðist sem allt atvinnulífið velti á þeim og að þau beri það nær eingöngu uppi. Þegar við skoðum hins vegar tölur um atvinnumarkað kemur annað í ljós. Ársverk á íslenskum vinnumarkaði eru 182.500. 31% af þeim ársverkum er unnið í þeim 2.336 fyrirtækjum sem heyra undir Samtök atvinnulífsins. Opinberi geirinn er 28%. Undir annarri atvinnustarfsemi er stærri tala en hjá Samtökum atvinnulífsins og mun fleiri vinna hjá þeim fyrirtækjum en hinum sem heyra undir Samtök atvinnulífsins. Önnur atvinnustarfsemi er með um 34% af öllum vinnumarkaðnum og 10.000 fleiri starfsmenn en heyra undir Samtök atvinnulífsins. Þessi fyrirtæki eru rekin á 28.664 kennitölum. Margir þessara aðila eru í miklum vanda.

Rekstur minni fyrirtækja er líka oft samofinn rekstri heimila eigendanna og stjórnendanna og því er vandi minni fyrirtækja einnig vandi heimilanna í miklu meira mæli en vandi stórra fyrirtækja. Hér er boðið upp á frábært og ódýrt hjálpartæki til að draga úr þeim samfélagslega kostnaði sem gjaldþrot felur óneitanlega alltaf í sér, svo ekki sé talað um fjöldagjaldþrot.

Ég skora á þær nefndir þingsins sem málið varðar að vinna það hratt og vel og þingmenn að leggja hönd á plóg og vinna þessu máli framgöngu. Þetta er frábært verkfæri ef við komum þessu í gegn og það er bara um að gera að fara að nýta sér það.