138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:48]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða umræðu um þetta mál og ætla rétt að koma inn á nokkur atriði.

Hv. þingmönnum hefur verið tíðrætt um hvort til þurfi aukinn meiri hluta atkvæða þegar Alþingi þarf að ganga að tillögu dómsmálaráðherra gegn áliti dómnefndarinnar. Ég sagði í framsöguræðu minni að það væri atriði sem þyrfti að ræða betur og að skiptar skoðanir væru um það. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á það að ef krafist er aukins meiri hluta samþykkis Alþingis um tillögu ráðherrans gæti það í reynd falið í sér að dómnefndin sé einráð, þ.e. það mundi í raun þýða að ráðherra mundi ekki voga sér að ganga gegn tillögu dómnefndar. Það er í sjálfu sér gilt sjónarmið en þá þarf líka að huga að því hvar valdið liggur vegna þess að dómnefndin er þá samkvæmt tillögu frumvarpsins skipuð fimm fulltrúum. Þar af eru þrír fulltrúar meiri hluti dómnefndarinnar tilnefndir af dómsvaldinu sjálfu, tveir af Hæstarétti og einn af dómstólaráði. Þá er verið að gefa dómnefndinni það vægi að ráðherra mundi aldrei voga sér að ganga gegn tillögu hennar, sem menn geta náttúrlega sagt að sé gott, en menn geta líka sagt: Ja, það er kannski tilefni til þess. Ef menn segja að það þurfi aukinn meiri hluta á þinginu þyrfti kannski að huga að því að stækka dómnefndina eða að hafa hennar vægi með einhverjum hætti sem temprar — í rauninni snýst þetta bara um það hver á að velja dómara. Þeir dómarar eru hluti af dómsvaldinu, það er einn þáttur ríkisvaldsins. Að hve miklu leyti ætla hinir þættir ríkisvaldsins að skipta sér af því hverjir gegna dómarastöðum?

Það má geta þess að í skýrslu nefndarinnar sem liggur til grundvallar þessu frumvarpi er gerð grein fyrir því sem gerist úti í hinum stóra heimi. Á bls. 3 er t.d. rakið að í sáttmála dómenda í Evrópu frá júlí 1998 er mælt með því að sérstöku stjórnvaldi sem sé óháð handhöfum framkvæmdar- og löggjafarvalds verði falið að taka ákvörðun um skipun dómara og önnur atriði sem varða stöðu þeirra. Minnst helmingur þeirra sem þar eiga sæti séu dómarar kjörnir til þeirra starfa af dómurum. Það væri í sjálfu sér alveg í samræmi að fela dómnefndinni þetta, þótt það sé kannski ekki þannig fram sett í textanum. Valdið væri þá í raun dómnefndarinnar algerlega og það væri þá í samræmi við þetta. En aðkoma Alþingis er að sjálfsögðu fyrst og fremst hugsuð sem öryggisventill eða, eins og nefndin orðaði það, sem neyðarhemill. Ég held því að þingmenn verði vel að meta það hvers konar sjónarmið liggja því til grundvallar að krafist sé aukins meiri hluta þegar tillaga ráðherrans er samþykkt.

Hvað varðar umræðuna um fulltrúa almennings held ég að maður sé alveg gersneyddur öllum húmor ef maður sér ekki skoplegu hliðina á því að talað sé um vel metinn borgara í greinargerðinni. En ég held að ummælin í greinargerðinni um þetta sé vel metinn borgari undirstriki í raun það ábyrgðarhlutverk sem Alþingi er falið, að velja fulltrúa í þessa nefnd. Ég segi fyrir mína parta að ég treysti Alþingi mjög vel til að velja fulltrúa almennings. Það þarf ekkert að vera að það þurfi að koma fram í lögskýringargögnum að þetta sé vel metinn borgari. Ég bendi á að umboðsmaður Alþingis er kjörinn af Alþingi og það mætti í sjálfu sér alveg hugsa sér að það myndist samstaða um einhvern fulltrúa almennings, það þarf ekki endilega að verða neitt ofboðslegt rifrildi um þann góða mann eða góðu konu. Ég segi því fyrir mína parta: Ég treysti þinginu til að velja þennan fulltrúa almennings en skil það auðvitað vel að þingmenn geti verið með böggum hildar varðandi þetta og rætt hvort einhver hagsmunasamtök séu þá betur fallin til þessa. Það er í valdi þingmanna.