138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Eins og aðrir þakka ég þessa ágætu fyrirspurn. Hún var mjög tímabær og það kom nákvæmlega fram sem ég óttaðist. Menn vissu ekkert út í hvað þeir voru að fara. Sú 1.000 millj. kr. kostnaðaráætlun sem við höfum dálítið rætt hér í tengslum við þessa aðildarumsókn er greinilega fullkomlega úr lausu lofti gripin og ég ítreka beiðni mína um utandagskrárumræðu við hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að ég tel fullt tilefni til að ræða þessi mál betur og lengur en maður getur gert í einnar mínútu athugasemd.

Það vakti athygli mína að hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að hann gæti ekki farið út á þá braut að áætla kostnaðinn. Það væri nefnilega þannig að slík uppstokkun verður umtalsvert kostnaðarsamari en núverandi kerfi. En umtalsvert hvað? Við vitum að það var gert ráð fyrir 1.000 millj. kr. en það var bara utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti sem sú upphæð átti að ná yfir. Hvað með Hagstofuna sem er að breyta um kerfi? Hvað með þingið sem er að (Forseti hringir.) senda fólk í ferðalög út um allt til að tala fyrir þessari umsókn? Ég segi: (Forseti hringir.) Við þurfum að ræða þessa kostnaðarhluti (Forseti hringir.) mun betur.