138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða er til að binda vonir við þann áfanga sem náðist í dag, að hann megi verða okkur til gæfu og að þessi leiðangur megi takast sem best. Gott er að fá fjölmargar ábendingar um það sem betur má fara í íslenskri löggjöf vegna þess að þær ábendingar eru auðvitað settar fram með hag almennings að leiðarljósi og auðvitað má víða í löggjöf okkar og á mörgum sviðum í íslensku samfélagi taka til hendinni og bæta úr.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að hér kemur ekkert nýtt fram. Þessar upplýsingar um kostnað máttu vera mönnum ljósar strax í sumar og 1.000 millj. eru sannarlega ákaflega lág fjárhæð (Gripið fram í: Lág?) þegar horft er til þess ávinnings sem við höfum haft af samstarfinu við Evrópu, ávinningsins af Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hygg að á aðeins nokkrum dögum nemi sá ávinningur einum milljarði og kostnaðurinn við reksturinn á íslensku krónunni er margfaldur þessi á hverju einasta ári þannig að í ljósi þeirra gríðarlegu efnahagslegu hagsmuna sem hér eru undir þá eru þessar fjárhæðir sannarlega viðunandi.