138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

lögregluréttur.

207. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra þetta svar. Ég tel mjög brýnt að hæstv. ráðherra haldi áfram á þeirri braut að reyna að bæta öryggi í réttarvörslukerfinu og eins draga úr því mikla álagi sem nú er á íslenskum dómstólum. Mér þykir áhugavert það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra er sneri að því að ákærendur gætu leitað sátta. Mig langar líka í framhaldi af því að spyrjast fyrir um hvort í slíku gæti falist að meira verði farið út í samfélagsþjónustu sem viðurlög við brotum þegar um er að ræða minni brot. Þarna erum við oft að tala um jafnvel unga brotamenn sem þvælast út af hinni réttu braut réttvísinnar og inn á einhverja glapstigu. Það er mjög mikilvægt í mínum huga að dómskerfið haldi nokkuð utan um þann hóp þannig að menn séu þá ekki brennimerktir að eilífu vegna einhverra bernskubreka. Þá vaknar sú spurning hvort við hefðum ástæðu til að beita annars konar refsiúrræðum meira en við höfum gert, þ.e. þegar við erum að tala bara um fangelsisdóm eða sektir. Það væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. dómsmálaráðherra.

Allt þetta snýst náttúrlega um að bæta afköstin hjá dómstólum landsins. Ég tel afar brýnt við þær aðstæður sem nú eru uppi að bæta aðstöðuna. Ég efast um að við sjáum fyrir hversu stórkostlegt álag muni verða á íslenskum dómurum á næstunni og hvet hæstv. dómsmálaráðherra, og ég veit að við deilum þeirri skoðun, til að standa vörð um og reyna að bæta eins og hægt er aðstöðu dómara, ekki bara dómara heldur líka aðstoðarmanna þeirra, þannig að við þurfum ekki að bíða allt of lengi eftir niðurstöðu þeirra mála sem við mörg hver bíðum nú eftir vegna hrunsins sem hér varð.