138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

kostnaður vegna starfa erlendra sérfræðinga í Seðlabankanum.

264. mál
[15:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir að ég fékk hugmyndina að þessari fyrirspurn, því hv. þingmaður taldi sérstaka ástæðu til að leggja óundirbúna fyrirspurn fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og spyrja sérstaklega út í bankaráðsmann sem Framsóknarflokkurinn tilnefndi í Seðlabankann og kostnaðinn varðandi að hafa erlendan mann í bankaráði bankans, ferðakostnað, kostnað við þýðingar og jafnvel túlkun á fundum bankaráðsins, nema töluð séu erlend mál þessa dagana, það sagði hv. þingmaður í fyrirspurn sinni. Mér fannst vanta í þessa fyrirspurn að spyrja frekar um þá erlendu starfsmenn eða fulltrúa sem höfðu verið tilnefndir á undan Daniel Gros inn í Seðlabankann og því ákvað ég að leggja fram fyrirspurn til ráðherra sem ég vonast eftir að fá svör við núna.

1. Hver var heildarkostnaðurinn, sundurliðað eftir mánuðum, við störf Sveins Haralds Öygards, sem var settur Seðlabankastjóri fyrr á árinu, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver bar kostnaðinn?

2. Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við setu Anne Sibert í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver ber kostnaðinn?

3. Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við setu Daniels Gros í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver ber kostnaðinn?

Mér þótti sérstök ástæða til þess að spyrja um hver beri kostnaðinn, því mér fannst það svolítið einkennilegt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn þingmannsins að Seðlabankinn virtist sjálfur ekki vera alveg viss um hver ætti að bera þennan kostnað og hafði síðan skrifað ráðuneytinu og fleiri aðilum og leitað svara við því hvar þessi kostnaður ætti að lenda. Það væri áhugavert að fá að vita hvort sams konar bréf hefði komið frá Seðlabankanum við ráðningar áðurnefndra erlendra starfsmanna við bankann.

Síðan verð ég að segja líka að mér fannst athyglisvert að þegar hv. þingmaður þakkaði fyrir svarið vildi hún taka sérstaklega fram að hún hefði ekkert á móti erlendum mönnum. Það er gott að vita að Samfylkingin hefur ekki sérstaklega mikið á móti erlendum mönnum þar sem hún var þarna búin að tilnefna tvo fulltrúa sem eru víst ekki með íslenskt ríkisfang eða tala íslensku, annars vegar seðlabankastjórann, setja hann, og síðan fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankans. Nákvæmlega þetta sama kom síðan fram í svari hæstv. forsætisráðherra. Hún virtist telja að við þyrftum ekki að hafa sérstakar áhyggjur af brottflutningi fólks frá landinu því það væru líka allt útlendingar. Það er gott að vita að Samfylkingin hefur ekki mikið á móti útlendingum. (Forseti hringir.)

Ég hlakka mikið til þess að heyra svör frá ráðherranum um þennan heildarkostnað.