138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[11:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir andsvarið. Hún hitti naglann á höfuðið að ríkisstjórnin er með málefni heimila og fjölskyldna í endalausri skoðun og það sem er endalaust hefur engan endi, þannig að við megum reikna með því að ríkisstjórnin komi aldrei til með að finna lausn á vandamálum þeirra hópa sem standa nú frammi fyrir gjaldþrotum og miklum erfiðleikum.

Ég ítreka það að hér er enn eitt frestunarmálið á ferðinni. Verið er að lengja endalaust í hengingaról þess hóps sem á í vandræðum vegna forsendubrests, vegna stökkbreytts höfuðstóls lána og ríkisstjórnin hefur enn á ný sýnt að ekkert á að gera, það á bara að hjálpa þeim sem komu þjóðinni á kaldan klaka. Það er hægt að afskrifa skuldir hinna svokölluðu útrásarvíkinga og færa þeim fyrirtækin á ný en þær afskriftir upp á 600 milljarða, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn boðaði og gætu hæglega farið til heimilanna, skila sér ekki. Það er mjög alvarlegt mál.

Ég kalla því eftir svörum frá stjórnarflokkunum: Hvenær á að beita því úrræði að koma með þessa 600 milljarða hingað heim og afskrifa hjá skuldugum heimilum og fjölskyldum?

Ég vil að það komi skýrt fram, þó að ég komi í þetta andsvar, að þingmenn Framsóknarflokksins ætla að sjálfsögðu að greiða atkvæði með þessari lagabreytingu, því þetta er jú til bóta, en við erum fyrst og fremst að benda á það að þetta er enn eitt frestunarmálið sem leysir ekki nokkurn einasta vanda. Ég kalla enn á ný eftir því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera núna til framtíðar (Gripið fram í: Nákvæmlega.) til að hjálpa skuldugum heimilum og fjölskyldum. (Forseti hringir.) Við framsóknarmenn köllum eftir ábyrgð. Við köllum eftir tillögum. (Forseti hringir.) Við köllum eftir aðgerðum. (Gripið fram í: Heyr.)