138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. allshn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hlaut að vera veðrinu að kenna. Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér hvernig á því stæði að hv. þm. Birkir Jón Jónsson væri ekki jafnvirðulega til fara og hann er yfirleitt hér í þingsal.

Ég ætla ekki að tala um Icesave, það hefur nógur tími farið í það hér. Það er ekkert launungarmál að mér finnast vinnubrögðin hér í þinginu, reynslumikilli konu eins og ég er, fyrir neðan allar hellur. Ég held að það sé ekki neitt frekar stjórninni að kenna en stjórnarandstæðingum. Ég hef stundum hugsað það með mér að hið fallega orð „samráð“ þýði í hugum margra það sama og „ég ræð“. Þegar stjórnarandstaðan kallar eftir samráði þýðir það að stjórnarandstaðan eigi að fara með stjórn í landinu en ekki stjórnin. Ég er ekki sammála því að það eigi að vera þannig.

Ég kvartaði yfir því í gær og ég kvartaði yfir því aftur í dag — ég ætti kannski að fara að kvarta yfir því í hvert einasta skipti sem tilefni er til — að hér í þingsal þykir það fínast og skemmtilegast að snúa út úr máli fólks. Mér leiðist það. Ég hef reynt að gera það ekki. Ég hef því setið hér oft og þagað. En það þýðir kannski ekkert að vera með einhverjar sérreglur á meðan allir hinir láta þannig að mér finnst þeir stundum sjálfum sér og okkur öllum til skammar. En ég er fegin því að veðrið skýrir bindisleysi þingmannsins.