138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn frestum við málum. Við erum í raun að fresta að taka á stærsta vanda sem Íslendingar horfa fram á, þ.e. málefnum heimilanna og skuldara. Það virðist vera orðin taktík hjá hæstv. ríkisstjórn að ýta málum á undan sér í staðinn fyrir að taka á þeim, sérstaklega vil ég setja það í samband við málefni heimilanna. Eins og fram hefur komið höfum við þingmenn, að ég held úr öllum flokkum, kallað eftir því að gripið verði til aðgerða og það strax. Við gerum það enn og aftur. Það þýðir ekki að leggja á auknar byrðar á heimilin í landinu. Það þýðir ekki að ýta vandanum á undan sér. Það verður að grípa inn í núna. Ríkisstjórnin hefur tækifæri til þess og á að ganga fram fyrir skjöldu, ekki ýta vandamálunum á undan sér.