138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að hefja mál mitt á því að ræða aðeins dæmalausan inngang hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Hann verður auðvitað að leggja sitt eigið mat á störf mín, ég ætla ekki að deila um það, en ég verð að mótmæla því að hann hefur nú í tvígang úr þessum stól fullyrt að ég sé fimmtugur. Það er ég ekki og hef aldrei verið. Ég skal fúslega gangast við því að vera miðaldra karlmaður, en það er sem kunnugt er hættulegasta dýrategund sem jörðin hefur af sér alið, þótt ég sé að mínu mati með þeim skaðlausari í þeim hópi. Ég er sem sagt ekki fimmtugur og hef aldrei verið og bið hv. þingmann (GÞÞ: Þú verður það.) að hafa það — ég vona að við verðum það báðir.

Um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja er margt hægt að segja, en kannski ekki allt á stuttum tíma. Við skulum þó reyna að fara yfir helstu punktana.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að þessi vinna er nú hafin af fullum krafti. Vitaskuld var ýmislegt gert árið 2009 en þá voru bankarnir um margt í erfiðri stöðu sem var kannski ekki að öllu leyti þeim sem stjórnuðu þeim að kenna, heldur ýmsu í umhverfinu. Nú hafa þau mál að mestu verið leyst. Efnahagsreikningar og eigendur liggja fyrir og það er verið að skipa stjórnendur til framtíðar þannig að bankarnir hafa alla burði til að fara að ganga í þessa vinnu af miklum krafti. Það er tvímælalaust mikilvægasta verkefnið sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir núna.

Það er síðan alveg rétt að umræðan um þessi mál hefur verið mjög hörð og óvægin, en hún gefur að mínu mati engan veginn sanna mynd af því sem er að gerast. Vitaskuld kann að vera að einhvers staðar sé pottur brotinn, ég ætla ekki að gefa út neitt allsherjarheilbrigðisvottorð fyrir þetta ferli allt saman, það hvarflar ekki að mér, en ég leyfi mér að fullyrða að það sé verið að gera margt mjög gott og kannski mest af því án þess að það veki mikla athygli í fjölmiðlum.

Kannski er sú staðreynd að þjóðfélagsumræðan um þessi mál er svo afskaplega neikvæð og dregur fram það sem menn telja verst angi af stærra vandamáli sem er það að þjóðfélagsumræðan sem slík er, þótt ástandið sé slæmt, miklu verri en ástandið gefur tilefni til. Þeim sem vilja hugleiða þetta nánar bendi ég á ágætan leiðara Margrétar Kristmannsdóttur í Fréttablaðinu í morgun sem ætti að vera þörf áminning til þeirra sem hafa verið hvað svartsýnastir og með mest svartagallsraus í umræðunni.

Þessi gagnrýni má ekki verða til þess að draga kjark úr öllum, hvorki bankamönnunum né öðrum. Bankarnir eru að takast á við mjög erfið verkefni og þau verða aldrei leyst þannig að öllum líki. Þetta eru einfaldlega ákvarðanir sem alltaf einhverjir verða óánægðir með, nánast sama hvaða ákvarðanir eru teknar. Við megum ekki hrekja bankana út í að taka engar ákvarðanir og ýta vandanum á undan sér. Þeir verða að geta leyst þetta mál og það mun taka einhvern tíma. Kannski verður hægt að gera mikið í ár en þessu mun örugglega ekki ljúka í ár, vonandi verður hægt að ljúka mestu á næsta ári þótt einhverjar eftirhreytur kunni að tefjast enn lengur en það. Það er mikilvægt hagsmunamál íslensks efnahagslífs að þessi fjárhagslega endurskipulagning einkageirans takist og takist vel. Með því að hún takist vel á ég kannski fyrst og fremst við það að það takist án þess að fyrirtækin hætti rekstri í stórum stíl, án þess að framleiðsla þeirra stöðvist, án þess að starfsfólkið missi störf sín.

Vitaskuld er staðan mjög misjöfn. Ef við lítum á einstök fyrirtæki eru kannski þau smæstu í einna bestri stöðu. Meðalstór fyrirtæki eru í misjafnri stöðu en verst er staðan hjá alls konar eignarhaldsfélögum sem voru stofnuð utan um þær spilaborgir sem réðu hér ríkjum á undanförnum árum. Þær eru nánast allar fallnar og verða ekki endurreistar.

Það umdeildasta í umræðunni er hvort fyrri stjórnendur þessara spilaborga geti fengið að endurreisa einhvern lítinn hluta af sínum föllnu spilaborgum og haldið áfram að stjórna þeim. Það fer augljóslega mjög illa í mjög marga, m.a. þann sem hér stendur. Orðspor þessara manna er illa leikið og það eitt gerir þeim mjög erfitt um vik að stjórna þessum fyrirtækjum af einhverju viti. Ég á ekki von á að sú lausn, að þeir sem áður héldu um stjórnartauma í þessum fyrirtækjum stjórni þeim áfram, verði ofan á nema kannski í örfáum undantekningartilfellum. Ef einhverjir telja stefna í það verðum við að hafa í huga að þessir menn eiga eftir alla glímuna við réttarkerfið, í einhverjum tilfellum refsikerfið en ekki síður eiga þeir eftir að takast á við fyrir dómi skaðabótakröfur og alls konar kröfur um riftanir á sölu eigna (Forseti hringir.) og arðgreiðslum. Þeir eiga í einhverjum tilfellum einnig eftir að takast á við skattkerfið. Ég treysti þessum anga ríkisvaldsins, þ.e. (Forseti hringir.) dómsvaldinu, vel til að takast á við það verkefni.