138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eitt af meginviðfangsefnum samfélagsins í dag er að byggja upp traust gagnvart íslenskum dómstólum, Alþingi, framkvæmdarvaldi og kannski ekki síður gagnvart íslenskum fjármálastofnunum sem eðli málsins samkvæmt búa ekki við mikið traust í ljósi þess hruns sem varð hér í efnahagsmálum þjóðarinnar seinni part árs 2008. Viðskiptanefnd þingsins hefur átt í samræðum við bankana um það hvernig við getum tryggt réttlæti, gegnsæi og jafnræði gagnvart viðskiptavinum þessara banka og þannig getum við stuðlað að því í sameiningu að byggja upp aukið traust í samfélagi okkar sem er nauðsynlegt í dag. Ég tel að hlutverk okkar, kjörinna fulltrúa, í þeirri umræðu verði mikilvægt þegar fram líða stundir.

Þá velti ég fyrir mér hvernig við byggjum upp þetta traust. Ef fólk fer að hafa á tilfinningunni að verið sé að gera hvað best við þá sem fóru hvað óvarlegast, skulduðu hvað mest, að í sérstökum mæli séu þeirra skuldir og ábyrgðir þeirra afskrifaðar jafnvel á meðan hinn venjulegi launamaður fær nær enga bót sinna meina, ströglast við að reyna að borga af reikningum um hver mánaðamót og það dugar jafnvel ekki til, held ég og við framsóknarmenn höfum sagt það að við þurfum einhverjar almennar aðgerðir fyrir almenning í landinu, og reyndar fyrirtækin líka, til að koma á betri samstöðu í þjóðfélaginu.

Ég tel ekki loku fyrir það skotið að við getum með ákveðnu samkomulagi í samfélaginu komið slíkri leiðréttingu á. Ef henni verður ekki komið á og fólk upplifir í meira mæli að verið sé að afskrifa á þá sem hvað óvarlegast fóru held ég að við náum ekki þeirri samstöðu sem við þurfum í samfélagið í dag. (Forseti hringir.) Eins og ég segi held ég að ekki sé loku fyrir það skotið að við náum einhverri niðurstöðu í þeim efnum. Við framsóknarmenn (Forseti hringir.) tölum fyrir því að reyna að ná sátt í þessu mikilvæga máli í samfélaginu.