138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum. Það varðar kyrrsetningu eigna. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði inn í þessi lög heimild fyrir skattrannsóknarstjóra til að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðilum sem sæta rannsókn hjá embættinu ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan, þær glatist eða þær rýrni. Lagt er til að tollstjóri sem innheimtumaður ríkissjóðs annist rekstur slíkra mála.

Frumvarp sambærilegt þessu var lagt fram á 137. löggjafarþingi. Því var þá vísað til 2. umr. og til efnahags- og skattanefndar þar sem það mun hafa verið rætt nokkuð ítarlega en náði ekki endanlegri afgreiðslu. Frumvarpið er því lagt fram á nýjan leik með nokkuð breyttu sniði þar sem tekið hefur verið mið af athugasemdum sem fram komu við meðferð fyrra frumvarps á þingi eins og eðlilegt er.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við þeirri hættu sem sannarlega er til staðar eða getur skapast vegna þess hversu langan tíma málsmeðferð mögulegra skattalagabrota getur tekið, að eignum sé komið undan áður en mál eru fullrannsökuð. Af þessum sökum er talið nauðsynlegt að veita skattrannsóknarstjóra auknar heimildir til varnar því að þeir aðilar sem sæta skattrannsókn geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda og mögulegra fésekta vegna skattalagabrota með því að færa eignir í annarra manna hendur eða standa í öðrum gjörningum sem gætu orðið til þess að verðmæti gengju undan hinu opinbera sem því sannarlega bæru, að sjálfsögðu miðað við niðurstöðu máls hverju sinni.

Þetta er einfalt mál, virðulegi forseti, og ég vonast til að það geti nú fengið skjóta afgreiðslu í ljósi þess að það er endurflutt og þingmönnum og þingnefnd ætti að vera efni þess vel kunnugt. Ég legg til að þessu sögðu að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og 2. umr. að lokinni þessari.