138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp í andsvari til að nota það til að lýsa yfir stuðningi við þessa þingsályktunartillögu og mikilvægi þess að menn hafi eitthvert plan B. Það olli mér verulegum áhyggjum í sumar er leið að hæstv. forsætisráðherra upplýsti það í pontu að það væri aðeins eitt plan, það væri Evrópusambandið, það væri ekki til neitt plan B. Ég held að það sé — í ljósi þess sem þar er í gangi um stuðning við þær viðræður hér innan lands og það sem þar gæti komið fram — svolítið varhugavert að hafa ekki plan B.

En varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn get ég tekið undir flest sem kom fram í ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Mig langar samt að spyrja út í einn þátt og það er um stýrivexti eða vaxtastefnu Seðlabankans og tregðu Seðlabankans til að lækka vexti og hvort þingmaðurinn telji að það sé hreinlega ein af þeim földu stjórntækjum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir, að banna Seðlabankanum að lækka stýrivexti þrátt fyrir að mjög margir sérfræðingar á því sviði telji að nú séu allar aðstæður til þess, og m.a. sé einn anginn af því að þeir vextir sem er verið að greiða af fjármunum erlendra aðila sem eiga umtalsverða fjármuni, 500–600 milljarða — að við séum að greiða 50 milljarða í vexti vegna stefnu Seðlabankans og það sé vegna tilstillis Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því. Það sé sem sagt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem heldur okkur í þessari úlfakreppu vegna þess að það sé markmið þeirra að halda neyslunni og innflutningi í lágmarki því þannig verði til eins mikill gjaldeyrir og hægt er til að greiða fyrir lán og vexti fyrst og fremst af nýjum erlendum lánum. Hvaða álit hefur hv. þingmaður á þessum þætti málsins?