138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:41]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu frá þingmönnum Hreyfingarinnar og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins. Við lifum einstaka tíma, sjaldan eða aldrei hefur verið jafnmikil þörf á að við fáum bestu mögulegu aðstoð til handa Íslendingum við að koma okkur út úr þeim vanda sem við rötuðum í. Og nú gætu einhverjir sagt að einmitt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé erlendur sérfræðingur og ráðgjafi og það er hann. Vissulega hefur hann gefið ráð og aðstoðað þjóðir í vanda víða um heim en það er ekki nóg að gefa ráð, þau verða að duga. Rannsóknir hafa verið gerðar á árangri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að mínu mati er árangurinn af ráðgjöf hans ekki ásættanlegur, hvorki fyrir okkur Íslendinga né aðrar þjóðir í vanda. Hin klassísku meðul Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru einkum hátt vaxtastig — og við höfum svo sannarlega fengið að kynnast því — mikill og brattur niðurskurður, sem við erum í miðjum, og mikil skuldsetning til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Það er einmitt mjög einkennandi hér á landi þar sem fólki hefur verið talin trú um að við þurfum gífurlegan gjaldeyrisvaraforða.

Þessar aðgerðir hafa reynst kreppudýpkandi og ekki nein lausn á þeim vanda sem þjóðirnar eru í. Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hefur 31 verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum eins og þeim sem ég lýsti áðan. Sjóðurinn er þekktur fyrir að leggja of mikla áherslu á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem m.a. hefur leitt til mun dýpri kreppu en annars hefði orðið. Dýpt kreppunnar skiptir miklu máli þar sem bæði fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir miklum skaða vegna niðurskurðar og stöðnunar í öllu efnahagslífinu. Ég hef stundum líkt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við frystikistu því að hér er allt frosið og hefur verið síðan kerfið hrundi og það virðist ekkert lát vera á því frosti. Þá hefur sjóðurinn svo sannarlega sýnt sitt rétta andlit hér á landi í Icesave-málinu þar sem hann hefur látið það viðgangast að Bretar og Hollendingar noti hann miskunnarlaust í þvingunaraðgerðum sínum.

Virðulegi forseti. Ég er ekki nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og einmitt þess vegna treysti ég mér ekki til að leggja fram tillögu að fullmótaðri aðgerðaáætlun til að losna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá Íslandi eða koma með eitthvað sem er betra því að hér dugir engin menntaskólahagfræði. Hins vegar hafa margir af færustu fræðimönnum heims á þessu sviði, eins og t.d. Joseph Stiglitz, gagnrýnt stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins harðlega í gegnum tíðina. Þeir hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga og margir hafa gefið skýrt til kynna í ræðu og riti að þeir hefðu áhuga á að leggja hönd á plóg. Mér fyndist til mikils að vinna að reyna að feta aðra leið en þá sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur varðað. Við verðum að reyna að læra af reynslu annarra þjóða sem hafa farið flatt á því að fylgja AGS í blindni.

Nú eru liðnir 16 mánuðir frá hruni. Fyrir 16 mánuðum voru okkur allar bjargir bannaðar og við neyddumst til að leita á náðir sjóðsins. Nú er staðan önnur, okkur ber skylda til að leita annarra leiða. Ég tek skýrt fram, sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, að við erum ekki að leggja það til að við kveðjum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn án þess að vera vel undir það búin. Áður en slíkt er gert þurfum við vel ígrundaða áætlun byggða á traustum grunni. Mergur málsins er sá að við eigum sjálf að ráða ríkisfjármálum okkar. Við eigum að ráða okkur ráðgjafa sem henta okkur, ekki taka bara því sem að okkur er rétt. Að vel ígrunduðu máli getur vel verið að við sjáum að leið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins henti okkur best, þótt ég eigi erfitt með að trúa því, en á meðan við höfum ekki annan valkost vitum við ekki hvort annar kostur býðst. Við verðum að kanna allar mögulegar leiðir því að það eru alltaf til fleiri en ein leið en þær eru misfarsælar.