138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

almenningssamgöngur.

14. mál
[17:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég held við séum í öllum meginatriðum sammála í þeim efnum. Ég vil líka þakka fyrir orðræðuna því að það er ekki á hverjum degi sem menn skiptast á skoðunum og sameinast um verkefnin, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við höfum reyndar talað fyrir því í Framsóknarflokknum í á annað ár að við förum að iðka meiri samvinnustjórnmál, reyna að nálgast grundvallarmál þvert á flokka og vinna þau vel og vandlega saman og reyna að ná sem víðtækastri sátt um stórmál sem almenningssamgöngur eru. Vonandi er þetta það sem koma skal.

Ég veit að hv. þingmaður þekkir það vel að vinna með framsóknarmönnum, hann hefur gert það á vettvangi borgarinnar. Ég veit ekki betur en hann hafi hælt Framsóknarflokknum verulega í því samstarfi þannig (Gripið fram í.) að við framsóknarmenn hlökkum til samstarfsins í þessu mikilvæga máli hér á vettvangi þingsins. Menn verða að fara að hætta þeim vinnubrögðum, sem hafa því miður tíðkast í allt of miklum mæli, að setja sig í einhverjar skotgrafir, á vettvangi meiri hlutans og minni hlutans. Við náum vonandi góðri samvinnu á vettvangi þingsins og í þingnefndum um að vinna þessi mál áfram.

Hér er ekki um neitt smámál að ræða og því mikilvægt að sem flestir komi að þeirri vinnu. Við framsóknarmenn munum glaðir taka þátt í þessari vinnu sem snertir svona grundvallarmál, snertir jöfn lífskjör almennings í landinu. Þar má ekki undanskilja fólk á landsbyggðinni frekar en íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Menn þurfa að taka víðan vinkil á þetta risastóra mál og við erum tilbúnir í það verk.