138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

réttarbætur fyrir transfólk.

168. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil bara þakka aftur kærlega fyrir þær góðu viðtökur sem þetta mál hefur fengið. Ég ítreka aftur það sem hér kom fram að þessum einstaklingum og þessu máli öllu er það gríðarlega mikilvægt að þverpólitísk samstaða náist og haldist, að það sé sátt um málið. Einnig að tekið sé heildstætt á stöðu þessara einstaklinga og að hagsmunasamtök transfólks komi með beinum hætti að starfi þess hóps sem á að fara yfir málin. Þetta er ekki flókið, þetta er ekki tímafrekt, fyrirmyndirnar eru allt um kring. Þetta krefst ekki gríðarlegra fjárútláta en þetta breytir í grundvallaratriðum lífi einstaklinga í okkar samfélagi til góðs og er þeim afar mikilvægt. Ég vil því þakka þessar móttökur og vona að málið vinnist áfram vel í nefnd.