138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ágæt samstaða í þingsal um það hvernig eigi að halda á málum þegar kemur að nýtingu orkunnar og að orkufrekum framkvæmdum. Vandinn er að sú samstaða nær ekki til ríkisstjórnarinnar. Þar inni er hver höndin upp á móti annarri. Það þekkja allir og það verður ekki falið með orðagjálfri og útúrsnúningum.

Vandinn er sá að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til eru einfaldlega ekki nægar til að koma íslensku þjóðarbúi úr þeim vanda sem nú blasir við. Þegar menn litast um er auðvelt að sjá hvað vantar, það vantar aðgerðir til að koma skuldugum heimilum til hjálpar. Sú ákvörðun að hækka skatta á almenning við aðstæður þar sem skuldirnar voru komnar upp úr öllu valdi var nánast óskiljanleg og mjög óskynsamleg.

Tekin var ákvörðun um að gera samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Forseti Alþýðusambandsins og forustumenn Samtaka atvinnulífsins hafa ítrekað lýst því yfir að ríkisstjórnin standi ekki við sinn hluta af því samkomulagi. Það er lærdómsríkt fyrir þá sem hér eru í forsvari fyrir ríkisstjórnina að huga að ummælum forseta ASÍ þar sem hann kallar aftur og aftur eftir aðgerðum, bæði hvað varðar skuldir heimilanna en líka varðandi þær framkvæmdir sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi einmitt áðan.

Síðan bætist ofan á að ríkisstjórnin hefur hleypt einni meginatvinnustoðinni í loft upp, íslenskum sjávarútvegi, með ótímabærum yfirlýsingum um fyrningarleið með undarlegum og allt að því furðulegum málatilbúnaði í þinginu um nýtingu ýmissa fiskstofna sem gerir það að verkum að í þessari meginatvinnugrein eiga menn erfitt með að ákveða (Forseti hringir.) hvort eigi að fjárfesta eða ekki. Það gildir það sama yfir allt saman, það er úrræðalaus og gagnslaus ríkisstjórn sem nú situr við völd.