138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

undirbúningur og kynning þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Vissulega þarf að klára þetta mál. Sérstaklega held ég að Bretar og Hollendingar þurfi á því að halda ef þeir telja sig eiga hér eitthvað inni. Það er sjálfsagt mál að reyna að liðsinna þeim við það eins og við höfum gert en við verðum þá í þeirri liðveislu að gæta hagsmuna Íslands og tala þannig út á við því að hvað eftir annað á ögurstund í þessu máli hafa ráðherrar í íslensku ríkisstjórninni komið með vægast sagt óheppilegar yfirlýsingar eða jafnvel sent frá sér gögn, lekið gögnum í fjölmiðla sem eru stórskaðleg á meðan á viðræðum stendur.

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki nóg komið af þessum viðræðum sem virðast eingöngu til þess fallnar að skapa óvissu fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni? Er ekki rétt að samninganefndin komi heim og menn haldi svo áfram að ræða málin að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni? Auðvitað verða menn að undirbúa kynningu vel. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra spyr: Um hvað er verið að kjósa? Það er verið að kjósa (Forseti hringir.) um það að fella úr gildi þessa gömlu Icesave-samninga vegna þess að þeir hanga saman og falla báðir þegar annar er felldur.