138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

samningsstaða Íslands og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra og ég ætla að halda áfram að tala um sama mál vegna þess að mér finnst hæstv. fjármálaráðherra ekki svara skýrt.

Ég tek undir með formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, það er algjörlega ljóst að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram á laugardaginn og ég er í sjálfu sér ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra sé loksins búinn að átta sig á því.

Hins vegar vil ég spyrja ráðherrann beint út: Hvort telur hæstv. fjármálaráðherra það styrkja betur samningsstöðu Íslands í framhaldinu að fólk mæti á kjörstað og greiði atkvæði með samningnum eða að það greiði atkvæði á móti samningnum? Er betra fyrir fólk að segja já eða segja nei upp á samningsstöðu Íslands í viðræðunum (Gripið fram í.) sem verða í framhaldinu?

Næsta spurning til hæstv. fjármálaráðherra er þessi: Telur hæstv. fjármálaráðherra að það styrki samningsstöðu Íslands með einhverjum hætti að kjósendur mæti ekki á kjörstað á laugardaginn kemur? Mun það bæta stöðu Íslands með einhverjum hætti í framtíðarsamningaviðræðum að fólk mæti ekki til þess að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni?

Ég held að ég geti ekki talað skýrar. Núna eru tveir dagar í þessa kosningu. Samstaðan hefur komið okkur þangað sem við erum núna. Er ekki kominn tími til þess að íslenska ríkisstjórnin, ráðamenn Íslands, gangi fram fyrir skjöldu og tryggi að íslenska þjóðin viti hvernig hennar hagsmunum er best varið. Ég segi: Mætum öll á kjörstað og segjum nei. Nú bíð ég spennt eftir að heyra hverju hæstv. fjármálaráðherra svarar í þessum efnum.