138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

samningsstaða Íslands og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka að sjálfsögðu traustið, að ég hafi fengið hér áskorun um að taka að mér að veita þjóðinni pólitíska leiðsögn í þessari vandasömu stöðu. En nú er verið að kjósa hér í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt tiltekið lagafrumvarp. Eitt er víst og það er að ef það frumvarp verður fellt er málið ekki leyst, þá er málið ekki búið, það er ekki horfið, (Gripið fram í.) það þarf áfram að vinna að því.

Það er líka ljóst að það hefur orðið sú þróun í þessum samningaviðræðum að okkur bjóðast hagstæðari kjör til að klára málið, (Gripið fram í.) sú staðreynd verður ekki þurrkuð út. Ég segi: Þeim mun skýrar sem það liggur fyrir hvað við höfum í höndum áður en laugardagurinn rennur upp, þeim mun betra er það, það hlýtur að vera. Þar eiga kjósendur sinn rétt að fá upplýsingar þannig að þegar lotunni lýkur í London (Forseti hringir.) er mikilvægt að upplýsa í framhaldinu nákvæmlega hver staða málsins er, (Gripið fram í.) hvað er í hendi eða ekki í hendi, og það auðveldar mönnum væntanlega að gera upp hug sinn. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í þingsal.)