138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

afnám verðtryggingar.

[10:59]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina hér fyrirspurn til fjármálaráðherra varðandi afnám verðtryggingar. Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði í ágúst 2008 töldu 83% landsmanna að afnema ætti verðtryggingu lána í íslenskum krónum. Liðlega ári síðar, í september 2009, vildu, samkvæmt annarri könnun Capacent Gallup, 80% landsmanna afnema verðtryggingu. Í sömu könnun kemur einnig fram að um 75% svarenda eru hlynnt almennri niðurfærslu á verð- og gengistryggðum lánum.

Á borgarafundi 16. febrúar 2009 greindi fjármálaráðherra frá því að hann vildi afnema verðtryggingu þegar búið væri að ná verðbólgu niður því að þá yrði það gerlegt. Þegar þessi ummæli voru viðhöfð hafði vísitala neysluverðs hækkað um tæp 18% á ársgrundvelli. Nú í janúar 2010 mælist verðbólga á ársgrundvelli 6,6%.

Í ljósi þessa beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hversu lág þarf verðbólgan að vera á ársgrundvelli í prósentum talin til að hæstv. fjármálaráðherra standi við orð sín og beiti sér fyrir afnámi verðtryggingar?

2. Hefur undirbúningur hafist í fjármálaráðuneytinu að einhverju marki fyrir afnámi verðtryggingar?