138. löggjafarþing — 86. fundur,  4. mars 2010.

fæðingar- og foreldraorlof.

163. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur fyrir innlegg þeirra og tek heils hugar undir það að mikilvægt er að þessi önnur tilvik séu einmitt skoðuð og skoðuð mjög alvarlega. Hvers vegna var það ekki gert strax? Jú, þetta verður að taka í skrefum. Kosturinn við þetta frumvarp er sá að það er svo skýrt að í tilvikum einmitt þessara barna þá er bara eitt foreldri til staðar lagalega, og að þau lagalega eru klárlega beitt misrétti, þ.e. að njóta ekki jafnræðis hvað varðar samvistir eða fæðingarorlof foreldra í níu mánuði, samvistir á meðan þau eru ung.

Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið að það verður einmitt að skoða fleiri tilvik því að þau eru sannarlega til og öll börn eiga rétt á samvistum við vonandi báða foreldra, ef þeir eru til staðar, en ef ekki þá við það foreldri sem annast þau. Við eigum ekki að beita misrétti gagnvart ólíkum fjölskyldugerðum og í samfélagi okkar eru náttúrlega svo mörg ólík fjölskylduform til og til þess verður að taka tillit.

Um leið viljum við auðvitað ekki heldur grafa undan því góða sem er í okkar kerfi, sem er einmitt það að reyna að fá báða foreldra til að koma að málum, bæði móður og föður. Þess vegna var þetta sett hér inn. Ég hugsaði mikið um það hvort taka ætti allan pakkann en það er miklu flóknara að gera það í einu og kannski ólíklegra að það færi í gegn. Þess vegna var þetta gert í samráði við flutningsmenn, að setja þetta svona hér og beina því sérstaklega til nefndarinnar að skoða það og taka til alvarlegrar umfjöllunar. Sumir eru hræddir við þetta og það er skiljanlegt en við verðum að hafa hug til þess að gera það vegna þess að þetta er alvörumál og við eigum að krefjast þess að öll ungabörn á fyrstu mánuðum lífsins fái þennan tíma með foreldri.