138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ástæða til að spyrja: Hvort erum við að tala um Icesave eða ríkisstjórnina? Ég er einn af þeim sem fögnuðu nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þátttakan var mikil, afstaðan var afdráttarlaus. Þetta var tilefni til að kynna málstað Íslands erlendis. Á því þurfum við að halda, ekki bara vegna Icesave-samningsins heldur til að styrkja okkur í þeim skrefum sem við komum til með að stíga inn í framtíðina. Ef við höldum hópinn og gerum það sem við höfum gert á undanförnum vikum mun okkur áfram miða áleiðis. Við höfum bætt stöðu okkar umtalsvert sem nemur tugum milljarða. Vextirnir af Icesave í fyrra og á þessu ári eru ígildi niðurskurðar ríkisútgjalda á tveimur árum. Þetta er stórkostlegur árangur sem samstaðan hefur skilað okkur og núna þegar ég heyri fulltrúa stjórnarandstöðunnar segja að endurskoða þurfi samningsmarkmiðin legg ég við hlustir. Gott og vel. Endurskoðum öll okkar markmið, en hlustum grannt eftir.

Er samningsmarkmiðið e.t.v. orðið að koma ríkisstjórninni frá? Ég heyri ekki betur og þá vil ég að eitt sé alveg kristalklárt, ekki verð ég með í þeirri vegferð. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Það vissum við.) (Gripið fram í: Kannski ríkisstjórnin ….)

Það er stundum um það rætt (Gripið fram í.) í úfnum sjó að menn þurfi að leggjast saman á árarnar. Forsenda þess að slíkt takist er að menn séu á sama bátnum. Það höfum við Íslendingar ekki verið á undanförnum árum og kannski áratugum vegna þeirrar misréttisstefnu sem innleidd hefur verið í landinu. Þegar hv. formaður Sjálfstæðisflokksins talar um traust sem stjórnmálaflokkar njóti, Alþingi eða ríkisstjórnir spyr ég: Hvaða flokkar eru best til þess fallnir að koma Íslendingum á sama bátinn (Gripið fram í: Ég held að þetta sé …) með réttlátri stefnu í efnahagsmálum og í þjóðmálum almennt? Ég tel það vera þá flokka sem skipa (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnin þarf hins vegar að líta í eigin barm og endurmeta stöðu sína í ýmsum málum til að hún fái góða fótfestu inn í framtíðina.