138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað þó að á köflum hafi hún einkennst heldur af upphrópunum en lausnamiðun. Við þurfum eins og hér hefur komið fram að horfa til almennra aðgerða eins og ég nefndi í upphafi máls míns. Ég ákvað hins vegar að einbeita mér að þeim verkum sem beinlínis eru á borði iðnaðarráðuneytisins og fór þess vegna ekki út í aðra sálma hér.

Af því að hér var sagt að það væri smjörklípa að segja að Icesave væri eitthvert vandamál hvað varðaði fjármögnun stórframkvæmda þurfa menn ekki að gera annað en að fletta blöðum síðustu vikna og sjá þar vitnað í t.d. forstjóra Landsvirkjunar og fleiri aðila sem beinlínis segja þetta, að þeir finni að þetta þvælist fyrir í fjármögnun. Það þarf ekkert fleiri orð um það eða frekari vitnanna við. (Gripið fram í: Ekki vegna nýframkvæmda.)

Virðulegi forseti. Það þarf líka að horfa til sértækra aðgerða á þessu sviði. Við þurfum að horfa til lengri tíma og við þurfum líka að horfa til skemmri tíma. Við þurfum að horfa til lengri tíma í því að hér mun fjölga verulega á vinnumarkaði á næstu árum og eins og bent hefur verið á þurfum við eftir 10 ár að skapa hér 35.000 störf. Það er ekkert smáverk. 15.000 eru hér atvinnulausir og við erum að vinna að því á fullu, samstiga, þessi ríkisstjórn. Menn skulu ekki reyna að halda öðru fram. (Gripið fram í: … atvinnulífinu …)

Virðulegi forseti. Við höfum t.d. varið Tækniþróunarsjóð. Ég er nýbúin að rita undir vaxtarsamninga sem tryggir að núna eru allir landshlutar í landinu komnir með vaxtarsamninga, (Gripið fram í.) líka Suðurnesin. Við erum að vinna að orkuskiptaáætlun. Ég held að hv. þingmaður eigi að leyfa mér að klára að tala hér. Það er ekki hægt að eiga samtal við svona menn í umræðum í þinginu.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ekki hefur gengið að ná samstöðu við þessa stjórnarandstöðu. Það er enginn vilji til þess þeim megin, menn hafa ekki einu sinni nennu til að sitja hér (Forseti hringir.) og hlusta á aðra tala vegna þess (Gripið fram í: Rangt.) að svo ofsalega uppteknir eru þeir af sjálfum sér og að breiða yfir sinn hlut í því (Forseti hringir.) að við erum í þeirri stöðu sem þessir stjórnarflokkar eru núna að reyna að moka okkur út úr. (Gripið fram í.) Það er (Forseti hringir.) staðreynd. Þess vegna, virðulegi forseti, líður Sjálfstæðisflokknum svona illa í þessum þingsal þegar verið er að benda á þessa [Kliður í þingsal.] augljósu (Forseti hringir.) þætti. (Gripið fram í: Voðalega …) (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Að lokum verð ég að segja að (Forseti hringir.) fjölmörg verkefni eru í gangi. Við munum koma okkur upp úr þessu og hér mun skapast fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum til að vinna bug á atvinnuleysisbölinu. (Gripið fram í.)