138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:30]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að fara í gegnum þetta massífa frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ég var á fundi í síðustu viku þar sem fulltrúi menntamálaráðherra sagði, með leyfi forseta, að frumvarpið væri ekki mælt í millimetrum heldur sentimetrum. Ég veit ekki hvort það segir eitthvað til um gæði þess, en ég er með þrjár athugasemdir sem mig langar að koma á framfæri.

Í fyrsta lagi það sem hefur komið fram hér varðandi eignarhaldið. Mér finnst mjög einkennilegt að ekki sé tekið á því máli hér. Þetta er stærsta deilumálið og við þekkjum það öll sem hér erum. Í öðru lagi langar mig að spyrja hvort við höfum í dag efni á því að setja á fót nýja ríkisstofnun sem heitir Fjölmiðlastofa og hvort það eftirlitshlutverk sem hún hefur geti í rauninni ekki bara heyrt undir menntamálaráðuneytið, þar er nóg af starfsfólki. Í þriðja lagi hef ég pínulitlar áhyggjur af V. kafla þar sem rætt er um réttindi og skyldur fjölmiðlaþjónustuveitenda, hvort löggjafinn sé ekki farinn að seilast of langt í að skipta sér af því efni sem (Forseti hringir.) fjölmiðlar láta frá sér og takmarka það, til að (Forseti hringir.) mynda að þeir eigi að vera með svo og svo mikið af evrópsku efni o.s.frv.