138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[17:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls um þetta frumvarp fyrir það sem þeir hafa lagt til málanna og þakka mikinn og víðtækan stuðning við frumvarpið enda held ég að þetta sé allt saman til mikilla bóta. Ég ítreka enn einu sinni að þetta er unnið í náinni samvinnu við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þegar svona ástand er eins og er í þjóðfélaginu núna er mikils um vert að sú samvinna sé mikil og ég er ákaflega stoltur af því hversu mikil hún er hvað þetta varðar á milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hér hefur ýmislegt verið sagt og komið fram og ég ætla aðeins að bregðast við því. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi um afar athyglisverða þætti, að fjórir eða sex einstaklingar í fámennri sveitarstjórn geti tekið stórar ákvarðanir og skuldsett viðkomandi sveitarfélög upp í rjáfur og ráðist allt of mikið í stórar framkvæmdir án þess að íbúar komi að. Ég er alveg hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður var að ræða um, þ.e. að það geti fullkomlega komið til álita við endurskoðun sveitarstjórnarlaga að setja inn ákvæði um að íbúum sé gefinn kostur á að tjá sig um stórar og miklar ákvarðanir sem sveitarstjórnin vill fara í, þess vegna með íbúakosningum og maður hugsar kannski svolítið um ef það hefði verið gert fyrr. Virðulegi forseti, þó að íbúar reyni að fylgjast vel með sveitarfélagi sínu, fjárhagsstöðu þess og öðru þá geta kannski ekki allir íbúar lesið úr reikningum, sem ég held að sé dreift í öll hús, eða yfirlitum reikninga hver fjárhagsstaðan er. Dæmi um hvað gæti ruglað þetta er að fjárskuldbindingar utan efnahagsreiknings eru töluvert miklar og koma ekki fram í efnahagsreikningi sveitarfélaganna heldur í einhverjum skýringum á vaxtalagareikningum þannig að í raun, virðulegi forseti, þarf hálfgerða reikningsskilaspesíalista eða endurskoðendur eða mikla og góða bókara til að fara í gegnum þetta og gera sér grein fyrir þessu. Þetta er einn af þeim þáttum sem ég held að sé mikilvægast fyrir okkur að taka til skoðunar í heildarendurskoðuninni, hvernig við getum komið þessum upplýsingum betur til íbúanna og viðkomandi sveitarstjórn geti betur upplýst um hvað er um að vera og í hvað menn eru að spá og þannig sé upplýst ákvörðun tekin.

Hv. þm. Róbert Marshall var í svipuðum gír hvað varðar skuldaþol og hallarekstur og þakka ég honum fyrir það sem þar kom fram. Hv. þm. Björn Valur Gíslason gat þess í stuttu andsvari áðan að þegar einstaklingar skuldbinda sig og kaupa sér íbúð eða hvað sem fari þeir í greiðslumat og reiknað sé út hvað viðkomandi geti gert miðað við tekjur, skuldsetningu og annað slíkt og því ekki að gera það líka gagnvart sveitarfélögunum. Það er alveg hárrétt og af sama meiði og ég ræddi hér og hv þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um.

Hv. þm. Róbert Marshall spurði um störf tekjustofnanefndar. Hún er skipuð fulltrúum allra þingflokka á vegum Sambandsins og ráðuneytisins. Formaður hennar er Gunnar Svavarsson, fyrrverandi alþingismaður og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Þeirri nefnd er ætlað að yfirfara lög um tekjustofna sveitarfélaga og meta hvernig hægt er að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga, auðvitað með tilliti til væntanlegrar verkefnatilfærslu um næstu áramót, þ.e. þegar málefni fatlaðra flytjast yfir til sveitarfélaga. Nefndin skilaði mér áfangaskýrslu í lok síðasta árs og lokaskýrsla nefndarinnar er væntanleg fyrir páskafrí og við erum m.a. að funda um áfangaskýrsluna núna og fundur er settur á morgun. Í áfangaskýrslu nefndarinnar var m.a. á það bent að vandi sveitarfélaganna um þessar mundir væri ekki síður skuldavandi en tekjustofnavandi og því sé brýnt að ríki og sveitarfélög sameinist um aðgerðir til að vinna á verulega þyngri greiðslubyrði einstakra sveitarfélaga, ekki síst vegna erlendra lána. Að þessu brýna verkefni er tekjustofnanefndin m.a. að vinna og ég hygg að við munum sjá það þegar nefndin skilar lokaskýrslu sinni og tillögum um þetta.

Hv. þingmaður spurði jafnframt um sameiningar sveitarfélaga vegna þess að það er auðvitað liður í bættri fjárhagsstjórn. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að sameining sveitarfélaga og fækkun þeirra er líka þáttur í rekstrarhagræðingu og öðru slíku. Það er skemmst frá því að segja, eins og kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá mér sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, þann 29. september sl., að unnið er að því að meta sameiningarkosti í hverjum landshluta í samstarfi við heimamenn og markmiðið er að tillögur verði kynntar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í september í ár. Ég bíð auðvitað spenntur eftir bæði tillögunum og umræðu á þinginu og svo metum við hvað við gerum í framhaldi af því en eins og við höfum sagt mun ráðherra sveitarstjórnarmála í framhaldi af því leggja fyrir hið háa Alþingi tillögur um breytta sveitarstjórnar- og félagaskipan sem tæki þá gildi árið 2014. Mjög metnaðarfullt starf á sér þar stað og sambandið kom líka til liðs við okkur með þessari yfirlýsingu. Þetta hefur verið unnið í ágætisverkefni þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi tvo fulltrúa og ráðuneytið tvo og svo eru fulltrúar frá fjórum þingflokkum og bara hin besta vinna sem er í gangi. Meðal annars hafa verið haldnir fundir á fjölmörgum stöðum um landið og rætt við sveitarstjórnarmenn og aðra sem hafa viljað koma. Fundirnir hafa verið ágætir og í morgun í ráðuneytinu var einmitt fundur þar sem farið var í stöðumat að lokinni þessari fundaferð eða þessum fundum og verið að marka hvernig við vinnum næstu skref.

Ég get aldrei látið hjá líða, virðulegi forseti, að geta þeirra samþykkta sem sveitarfélög á Austurlandi gerðu um Austurland sem hugsanlega eitt sveitarfélag og þess að sveitarfélög á Vestfjörðum ályktuðu á 60 ára afmæli Fjórðungssambands Vestfirðinga um að skoða þann möguleika að gera Vestfirði að einu sveitarfélagi. Þetta er ákaflega metnaðarfullt og gaman að fylgjast með því hvað sveitarstjórnarmenn eru framsýnir að ræða þessi atriði.

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir allt það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem situr á forsetastól núna, ræddi um. Þetta er svipað því sem við höfum rætt um sveitarfélögin og ríkissjóð, þ.e. tekjur sveitarfélaga hafa dregist saman, já, já, líka hjá ríkinu. Útgjöld hafa aukist, alveg hárrétt, líka hjá ríkinu. Sveitarfélögin eru að verja grunnþjónustuna, jú, jú, ríkið er líka að verja það sem að því snýr í velferðarþjónustunni. Aðgangur að lánsfé er takmarkaður og erfiður, alveg hárrétt, líka hjá ríkinu fyrir utan það að ríkissjóður er mjög skuldsettur og þarf eitthvað annað en frekari lán. Skuldir aukast og fjármagnskostnaður eykst, þetta er alveg hárrétt, vandi ríkisins er stór og dálítið minni hjá sveitarfélögunum en sams konar vandi er það.

Það er vafalaust líka alveg hárrétt, virðulegi forseti, að sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu verið að bregðast við þessu. Margar sveitarstjórnir hafa brugðist ákaflega vel við og ég er líka sammála því sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði. Ég er alveg sannfærður um að sveitarfélögin eru flestöll með ársfjórðungsleg uppgjör, ekki þó öll. Ég er nokkuð viss um að þau allra minnstu gera ekki ársfjórðungsleg uppgjör, en þau stærri og miðlungsstóru gera þau og þess vegna er verið að flytja í lög að þeim skuli skila til eftirlitsnefnda þannig að við getum fylgst betur með.

Ég tel að hv. þm. Björn Valur Gíslason hafi farið yfir það sem gert var og það sem við erum að fara fram á að sveitarfélögin geri og hvort Alþingi hefur kallað eftir því sama. Við skulum vona að svo sé en það er rétt sem hv. þingmaður hélt fram að í bráðabirgðayfirliti yfir niðurstöðu ársins 2009 er ákaflega merkilegt hversu vel hefur tekist til og ég get alveg sagt það, virðulegi forseti, vegna þess að það hlýtur að vera metnaðarmál hvers ráðherra að fylgjast með sínum stofnunum að ég var ákaflega ánægður með hvað stofnanir samgönguráðuneytisins komu vel út og voru ekki umfram fjárhagsheimildir. Ég held að verið sé að takast á við þetta í öllum ráðuneytum þó svo að staðan sé auðvitað frekar ósanngjörn og misjöfn á milli ráðuneyta.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, fjallaði um. Ég vil þakka honum alveg sérstaklega fyrir að hafa efnt til fundar í nefndinni þar sem m.a. fulltrúar í ráðuneytinu voru kallaðir til skrafs og ráðagerða og rætt var um sveitarfélögin í hagstjórninni og það sem þar hefur komið fram. Ég hef ekki fengið nákvæma lýsingu á því hvernig sá fundur var en mér fannst mjög gott að efnahags- og skattanefnd vildi kalla ráðuneytið til, til að ræða þessi atriði og þann hugsanlega hagstjórnarsamning sem verið er að vinna að í fullri og mikilli og góðri samvinnu við stjórnendur og forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að orðlengja þetta frekar en ítreka bara það sem ég hef sagt. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls um þetta frumvarp og þann víðtæka stuðning sem þeir hafa lýst gagnvart þessu frumvarpi. Ég vona að samgöngunefnd taki þetta fljótt og vel til skoðunar þó að það komi seint fram og við munum klára þetta mál. Síðast en ekki síst vil ég enn einu sinni ítreka það hvað samstarfið er gott á milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og þannig á það auðvitað að vera og þannig verður það áfram í þeirri vinnu sem við erum í, bæði hvað varðar sveitarstjórnarlögin, svo ég tali ekki um gerð hagstjórnarsamnings og þess sem á að fylgja honum.